Afkoma landbúnaðarins

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 15:57:02 (6679)


     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að hafa kvatt sér hljóðs hér á Alþingi. Hann hefur gert glögga grein fyrir þeim mikla vanda sem sauðfjárbændur standa frammi fyrir og allir þeir sem vinna við úrvinnslu og þjónustu við landbúnað beint og óbeint.
    Þingmenn Vesturlands hafa átt fundi með forsvarsmönnum búnaðarsambanda og stjórn Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi um vanda landbúnaðarins í kjördæminu. Einnig höfum við átt fundi með forsvarsmönnum atvinnuráðgjafar Vesturlands. En auðvitað þarf með öllum tiltækum ráðum að bregðast við þeirri alvarlegu stöðu sem sauðfjárbúskapurinn er í. Á þeim fundum sem við þingmenn Vesturlands höfum átt með bændum og forsvarsmönnum sveitarfélaganna á Vesturlandi hefur það komið fram m.a. í ályktunum sauðfjárbænda á Snæfellsnesi að þar verður mjög mikill samdráttur og það er ekki fyrir séð með hvaða hætti hægt verður á því svæði að bregðast við þeim mikla vanda.
    En, með leyfi forseta, vil ég gera grein fyrir ályktun sem stjórn Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi samþykkti, og hún hljóðar svo:
    ,,Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi vill vekja athygli stjórnvalda á þeirri byggðaröskun og öðrum ófyrirsjáanlegum afleiðingum sem hljótast kunna af óbreyttri framkvæmd búvörusamningsins í sauðfjárrækt í þeim byggðarlögum sem einkum byggja afkomu sína á hefðbundinni búvöruframleiðslu.``
    Þetta er megininntak í ályktun forsvarsmanna sveitarfélaganna og þeir leggja mjög ríka áherslu á samstarf stjórnmálamanna, sveitarstjórnarmanna og forsvarsmanna landbúnaðarins til að taka rækilega á í þessum málum.
    Virðulegi forseti. Tími minn er búinn, en ég vil að lokum vekja athygli á því að hér er verið að fjalla um lífsafkomu stórs hóps um allt land sem vinnur að landbúnaðarmálum. Það hefur fækkað verulega í þessum virðulega sal. Hvað þá með alla fjölmiðlamennina sem hér hópuðust að fyrir stuttri stundu. Þeir eru víðs fjarri þegar verið er að fjalla um svo mikilvæg mál sem atvinnumál landbúnaðarins.