Afkoma landbúnaðarins

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 16:12:37 (6685)


     Eggert Haukdal :
    Virðulegi forseti. Vegna frammíkalls míns í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og svara hans aftur til mín vil ég upplýsa hann um að sem betur fer er heilsa mín aðeins að koma til.
    Hvers vegna er staðan í landbúnaði svo slök sem raun ber vitni? Það er vegna þess að með þeim búvörusamningi sem gerður var árið 1990 og sem núv. ríkisstjórn tók í arf frá fráfarandi ríkisstjórn var lagður grundvöllur að því ástandi sem við búum við í dag í landbúnaðarmálum. Þessi samningur er einn mesti nauðasamningur sem gerður hefur verið hér á landi gagnvart landbúnaðinum og er allt annar samningur en sá samningur um búvöru sem í gildi var. Það er því furðulegt að talsmenn fráfarandi stjórnar skuli telja hann gull og gersemi eins og þeir segja stundum.
    En það var ekki nóg að fráfarandi ríkisstjórn samþykkti búvörusamninginn. 20% lækkun skyldi koma til framleiðenda á afurðaverði á stuttum tíma. Búvöruverð er vissulega of hátt til neytenda og það þarf að finna leiðir til lækkunar án þess að það lendi allt á framleiðendum. Ríkisstjórnin samþykkti og að afnema útflutningsuppbætur að fullu nú í lok þessa árs. Þá eru liðin 33 ár frá því að þær voru teknar upp. Árið 1985, á 26 ára afmæli þeirra, lagði Jón Helgason til með búvörulögum að þær skyldu afnumdar 1990. Þrír stuðningsmenn þeirrar ríkisstjórnar er þá sátu á þingi komu í veg fyrir að svo yrði heldur voru þær framlengdar að hluta til ársins 1992. Það var því vel að verki staðið hjá fráfarandi ríkisstjórn að fullkomna tillöguna frá 1985 um að afnema útflutningsbæturnar að fullu nú í ár eða hitt þó heldur. Einmitt þegar við þurftum að horfa til samninganna um GATT. Ein rós í hnappagatið hjá hæstv. fyrrv. ríkisstjórn.
    Útflutningsuppbætur hafa verið haldreipi bændastéttarinnar alla þessa áratugi. Það hefði hins vegar þurft að breyta hlutverki þeirra fyrir mörgum árum að fenginni reynslu. Það að ákveða að útflutningsbætur yrðu ekki greiddar með útflutningi nema fengist a.m.k. lágmarksverð, helst 50%, hefði verið meiri hvati til að afla markaða en að geta alltaf sótt afgangana í ríkissjóð. Þarna liggja vissulega áramistök. Einnig hefði verið eðlilegt að nota hluta þeirra í niðurgreiðslur innan lands til að halda niðri verðlaginu. Þá hefði neysluminnkun ekki orðið svo mikil sem raun ber vitni. En þegar loks var farið að breyta reglum um útflutningsuppbæturnar 1985 var ákveðið að þær skyldu fara að hluta til að efla nýjar atvinnugreinar í stað þess að veita þeim að hluta m.a. til að hjálpa mönnum út úr hefðbundnum búgreinum sem illa voru settir, minnka nokkuð framleiðsluna en styrkja sveitirnar sem heild.
    Því fé var vel varið sem fór í ferðaþjónustu. En sömu sögu er ekki að segja um það sem fór í ref og mink. Stjórnvöld, sérstaklega yfirmenn landbúnaðarmála, hvöttu bændur óspart til að fara í þessa grein. Þessi búskapur varð mikil harmasaga og verður ekki hjá því komist að stjórnvöld bæti þau harmkvæli betur sem fjöldi manna hefur orðið fyrir. Það er skylda þeirra vegna forsögunnar.
    En fráfarandi ríkisstjórn gerði meira. Hún var komin á þröskuldin inn í EES þegar hún fór frá. Búið var að semja um 98%, sagði Jón Baldvin. Ríkisstjórnin gleymdi nótuskiptum milli aðila varðandi landbúnað í þann tíma. Hún var búin í þeim samningum að samþykkja ákveðinn innflutning á landbúnaðarvörum og er vert að hugleiða út af orðum síðasta ræðumanns um innflutning. Þáv. landbrh. gleymdi líka GATT. Og þær voru ekki af háum hól tillögurnar sem voru lagðar fram við GATT á árinu 1990. Tillögur núv. ríkisstjórnar sem GATT voru sendar í janúar eru með öðrum hætti og þeim þarf að fylgja eftir, en betra var seint en aldrei miðað við það sem á undan fór.
    Spurning dagsins í dag er þessi til hæstv. landbrh. og núv. ríkisstjórnar: Hvernig er hægt að koma til móts við landbúnaðinn í dag og draga úr því áfalli sem verk fráfarandi ríkisstjórnar hafa valdið honum? Það er voði víða í byggðum ef það ekki tekst.