Afkoma landbúnaðarins

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 16:28:00 (6690)


     Guðni Ágústsson (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Ég hugðist ræða það efni sem ég ætla að taka fyrir fyrir umræðuna, en ég geri það að henni lokinni. --- Ja, það dæsir í forseta um leið og eitthvað er nefnt hér í þessum sal.
    Ég ber töluverða virðingu fyrir Alþingi og geri kröfu um að forsetar þingsins gæti fullrar virðingar og að málefni fái þann tíma sem þau þurfa. Ég veit ekki hvernig það kemur til að forsætisnefnd þingsins ákveður þegar t.d. hv. þm. Egill Jónsson, sem er formaður landbn. þingsins, biður um utandagskrárumræðu um mikinn vanda sem blasir við í greininni að hann skuli ekki komast áfram með að fá lengri tíma en hálftíma til málsins, að hann skuli ekki fá lengri tíma til þess að hér geti farið fram málefnaleg umræða, menn geti skipst á skoðunum og brotið málið til mergjar. Ég vil fá skýringu á því hjá forseta, sem hlýtur að hafa verið á þeim fundum þar sem forsætisnefnd tók þetta mál til umfjöllunar, hverju það sætir að menn leyfi sér að setja jafnstórt mál í hálftímaumræðu.
    Ég get vel skilið forsætisnefnd þó hún fallist ekki á hina lengri umræðu. En ég vek athygli á því að prýðilegar umræður hafa hér farið fram utan dagskrár um mikilvæg málefni á þessum vetri og þá hafa menn samið um ívið lengri tíma, klukkutíma, tvo tíma og hefur það gefist allvel. Mér hefur oft fundist að þessi styttri umræða næði ekki þeim árangri sem hún þyrfti að ná.
    Þessi orð mín eru fyrst og fremst sögð til að æskja skýringa á þeirri ákvörðun forsætisnefndar að neita hv. þm. um lengri umræðuna.