Málefni fatlaðra

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 18:47:31 (6700)


     Frsm. minni hluta félmn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Svæðisráðin eru eftirlitsaðili samkvæmt frv. En þau hafa enga heimild til að ráða sér starfsmenn. Þau eru ófær um að gegna sínu hlutverki eins og það er framsett í frv.
    Fyrst hæstv. ráðherra minntist á Noreg í sinni ræðu áðan vil ég láta það koma fram mönnum til fróðleiks að norska Stórþingið tók sér þrjú ár að vinna að lagasetningunni. Það er nefnilega þannig að eitt er nefnd sem vinnur úti í bæ sem við getum kallað, jafnvel þótt hún sé skipuð fulltrúum stjórnmálaflokka, og annað er þingið sjálft. Ég er ekki þannig gerður að ég láti mér duga að einhver rétti að mér blað og segi: Ég er búinn að samþykkja blaðið, þá skalt þú rétta upp hönd. Ég vil kynna mér málið sjálfur. Ég vil móta mína eigin afstöðu og vinna í því. Það að það tók nefndina tvö ár að skila af sér er ekki óeðlilegt í ljósi þess hversu viðamikill málaflokkurinn er. Það sem er óeðlilegt er að ætlast til þess að þingið klári málið á tveimur mánuðum eða félmn. öllu heldur. Það er það sem er óeðlilegt.
    En ég fagna að lokum lokaorðum hæstv. ráðherra og segi við ráðherrann að ég er þess albúinn að leggja mig fram um að ræða um samkomulag eða einhverja niðurstöðu sem menn geta unað við á milli 2. og 3. umr.