Málefni fatlaðra

146. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 21:01:00 (6710)

     Eggert Haukdal :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kemur á þskj. 915, nál. meiri hluta félmn., skrifaði ég undir það álit með fyrirvara. Ég stend að sjálfsögðu að öllum brtt. meiri hlutans.
    Á þskj. 959 hef ég lagt fram fjórar brtt. við frv. til laga um málefni fatlaðra.
    1. brtt. er við 4. gr. frv. og fjallar um skipun stjórnarnefndar málefna fatlaðra. Í 4. gr. frv. segir svo:
    ,,Sérstök nefnd skal vera félmrn. til ráðgjafar um málefni fatlaðra. Nefnist hún stjórnarnefnd um málefni fatlaðra og skal hún skipuð af ráðherra til fjögurra ára í senn. Í nefndinni eiga sæti fimm menn. Öryrkjabandalag Íslands, Landssamtökin Þroskahjálp og Samband ísl. sveitarfélaga tilnefna einn fulltrúa hver. Ráðherra skipar tvo fulltrúa án tilnefningar, þar af annan formann.
    Ég legg til að 1. mgr. 4. gr. breytist þannig:
    ,,Sérstök nefnd skal vera félmrh. til ráðgjafar um málefni fatlaðra. Nefnist hún stjórnarnefnd um málefni fatlaðra og skal hún skipuð til fjögurra ára í senn. Í nefndinni eiga sæti fimm menn. Alþingi kýs þrjá menn og Samband ísl. sveitarfélaga tilnefnir tvo menn. Ráðherra skipar formann úr hópi nefndarmanna.``
    Brtt. mín er í samræmi við umsögn stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga um frv. til laga um málefni fatlaðra. Formaður Sambands ísl. sveitarfélaga mætti á fundi félmn. og lagði ríka áherslu á að frv. yrði breytt í þessa veru. Stjórnarnefnd um málefni fatlaðra fer jafnframt með stjórn Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Í umsögn stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga er bent á að erfitt sé að sjá að það samræmist að hagsmunasamtök fatlaðra verði með þessum hætti hluti af framkvæmdarvaldinu sem þau eiga að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna gagnvart. Eðlilegra sé því að Alþingi kjósi þrjá fulltrúa í stjórnarnefnd og Samband ísl. sveitarfélaga tilnefni tvo. Reynslan hefur sýnt ótvírætt að samábyrgð af þessu tagi er hagsmunasamtökum ekki góður kostur og geri í raun hagsmunasamtök vanhæf til að gegna þýðingarmiklu hlutverki sínu. Ég vil taka sérstaklega fram að ég ber mikla virðingu fyrir báðum þeim samtökum sem hér eiga í hlut og því þýðingarmikla starfi sem þau hafa unnið. Önnur þessara samtaka eða jafnvel bæði sækja um fé úr Framkvæmdasjóði fatlaðra beint eða óbeint. Það er ekki hægt að setja fulltrúa þeirra í þá stöðu að vera að úthluta fjármagni til eigin samtaka. Eðlilegra er og í samræmi við lýðræðislega stjórnarhætti að Alþingi kjósi stjórnarmenn og Samband ísl. sveitarfélaga tilnefni sína fulltrúa. Með þessu móti geta samtök fatlaðra lagt hlutlaust mat á störf stjórnarnefndar sem þau geta alls ekki eigi þau fulltrúa í nefndinni.
    2. brtt. mín fjallar um 14. gr. frv. Þar legg ég til að bætist við ný málsgrein, 5. mgr., svohljóðandi:
    ,,Láti sveitarfélag, sjálfseignarstofnun eða félag í té afnot af mannvirkjum, tækjum eða öðrum gæðum til rekstrar sem ekki hefur verið fjármagnaður úr Framkvæmdasjóði skal í samningi vera ákvæði um afgjald sem ríkissjóður greiði.``
    Þessi málsgrein er tekin orðrétt upp úr athugasemdum þeirrar nefndar sem frv. samdi, aðeins að viðbættum orðunum ,,sjálfseignarstofnun eða félag``.
    Eins og fram kemur í lagafrv. er æskilegt að sveitarfélög sinni þessum verkefnum í auknum mæli, ekki síst búsetumálum. Gert er ráð fyrir að gerður verði sérstakur þjónustusamningur við þessa aðila þar sem fram komi greiðslukostnaður úr ríkissjóði. Ég tel þýðingarmikið að þetta ákvæði, sem fram kemur í athugasemdum með frv., bætist við 14. gr. þess og jafnframt að það sama eigi við um sjálfseignarstofnanir og félög. Ekki er hægt að mismuna sjálfseignarstofnunum og félögum og láta aðra reglu gilda um þau en sveitarfélög. Hér er að mínu mati um grundvallaratriði að ræða sem ekki síður varða hagsmuni hinna fötluðu er dvelja á slíkum heimilum, að þeim sé ekki óbeint mismunað hvort þau dvelja á heimili sem eru í eigu sveitarfélags, sjálfseignarstofnunar eða félags. Þetta atriði um greiðslu afgjalds á að mínu mati heima í lögunum sjálfum. Njóti sveitarfélag, sjálfseignarstofnun eða félag ekki afgjalds af eignum sem ekki hafa verið fjármagnaðar úr Framkvæmdasjóði fatlaðra er um hreina og beina eignaupptöku að ræða.
    3. brtt. mín fjallar um 16. gr. frv. Í 16. gr. frv. er fjallað um eftirlit með stofnunum fyrir fatlaða og kemur þar m.a. fram að félmrh. getur svipt rekstraraðila starfsleyfi að tillögu svæðisráðs hafi hann ekki uppfyllt kröfur þess eða ráðuneytisins um það sem talið er ábótavant í rekstri innan ákveðinna tímamarka. Svipting starfsleyfis er alvarleg aðgerð. Í lögunum kemur hins vegar hvergi fram hvaða kröfur rekstraraðili eigi að uppfylla og ekki hvaða brot varði starfsleyfissviptingu. Rekstraraðili á í raun engan málskotsrétt samkvæmt þessari grein. Um er að ræða einhliða ákvörðun félmrn. og svæðisráðs. Í frv. er ekkert sem skýrir þetta mál nánar. Ég tel að eðlilegra hefði verið að setja í lögin ákveðnar skýringar, t.d. hvaða brot varði starfsleyfissviptingu eða lýsingu á hvaða kröfur rekstraraðili eigi að uppfylla. Ég geri þá einu brtt. að stjórnarnefnd um málefni fatlaðra fjalli um slíkt mál. Tillaga mín er því að 16. gr. laganna verði óbreytt að því viðbættu að við bætist orðin ,,og stjórnarnefndar``. Umfjöllunaraðilar um starfsleyfissviptingu verða því þrír, svæðisráð, stjórnarnefnd og félmrn.
    4. brtt. mín varðar 50. gr. frv. sem hljóðar svo:
    ,,Tekjur sem falla til vegna starfsemi stofnana, svo sem af atvinnurekstri, skulu koma til frádráttar rekstrarkostnaði þeirra.``
    Í athugasemdum með frv. segir svo um sömu grein:
    ,,Hafi stofnun fyrir fatlaða eigin tekjur skulu þær tekjur koma til frádráttar rekstrarkostnaði þeirra. Hér er fyrst og fremst átt við tekjur vegna atvinnustarfsemi á þjónustustofnunum . . .  og vistheimilum . . .  ``
    Frsm. meiri hluta félmn. hefur í ræðu sinni gert grein fyrir hvernig túlka beri þessa grein. Þar kom fram að ákvæði þetta á ekki við um gjafir og sjálfsaflafé, enda kæmi slíkt ekki til greina. Nú vill svo til að tekjur þeirra aðila sem átt er við eru mjög litlar, enda lítil hvatning fyrir viðkomandi rekstraraðila ef tekjur sem þeir afla með vinnu sinni komi til frádráttar rekstrarkostnaði og þannig með óbeinum hætti renni í ríkissjóð.
    Mjög illa horfir í atvinnumálum öryrkja. Ég tel að þetta ákvæði hvetji ekki til atvinnuskapandi starfsemi þjónustustofnana og vistheimila. Þá er þess dæmi að vistheimili hafi nokkrar tekjur af starfsemi sinni án þess að ríkissjóður kosti þar nokkru til. Samkvæmt lagagreininni ættu slíkar tekjur að koma til frádráttar reksturskostnaði. Slíkt er með öllu óviðunandi. Ég legg því til að þessi grein verði felld úr frv. Þær litlu

tekjur sem rekstraraðilar kunna að hafa renni til starfsemi viðkomandi þjónustustofnana og vistheimila og komi því öllum til góða sem þar dvelja og starfa.
    Meiri hluti félmn. hefur lagt til yfir 20 brtt. við frv. sem ég stend að eins og fyrr kom fram í máli mínu. Hér er um svo mikilvægan málaflokk að ræða að einn eða tveir mánuðir til eða frá hefði ekki sakað að hefðu komið til viðbótar fyrir hv. nefnd að starfa að þessu máli og þar með gert okkur nefndarmönnum kleift að fara betur yfir málið.
    Að lokum þetta: Þetta mál var mikið miðstýringarfrv. þegar það var lagt fram. Úr þessu hefur mjög verið dregið með brtt. meiri hlutans. Þá er þess að geta að í þeim viðræðum sem nú standa yfir um breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga er mjög rætt um að þessi málaflokkur muni verða hjá sveitarfélögunum. Af þeirri ástæðu hefði verið eðlilegt að þetta mál hefði verið skoðað nokkuð betur í sumar. En vegna þess að sú leið var ekki farin kemst ég ekki hjá að leggja fram þær brtt. sem hef hér að framan greint frá.
    Ég þakka nefndarmönnum gott samstarf og sérstaklega formanni sem hefur lagt sig fram um að ná samkomulagi í nefndinni.