Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

147. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 21:41:47 (6718)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Herra forseti. Það er því miður litlu að svara. Ég lagði óbeint spurningu fyrir hæstv. forsrh. og úr því að hann kvaddi sér hljóðs átti ég von á að hann mundi gera einhverja tilraun til að svara því hvernig sú aðgerð sem hér er verið að grípa til af ríkisstjórn hans fellur inn í heimsmynd hans um fortíðarvandann og sjóðasukk fyrrv. ríkisstjórnar. Hæstv. forsrh. kaus að fara mjög fimlega fram hjá því að segja um það ekkert einasta orð í ræðustólnum og ég skil þögn hans. Hann er auðvitað í rjúkandi vandræðum með það, vill ógjarnan þurfa að viðurkenna að það er einmitt hið góða bú frá tíð fyrri ríkisstjórnar sem verður núna ríkisstjórninni og þó fyrst og fremst sjávarútveginum til hjálpar. Það er vel og þess vegna er ástæða til að gleðjast og út af fyrir sig er það meinalaust af minni hálfu þó í þessu tilviki kunni það að létta hæstv. ríkisstjórn lífið, harmkvælin sem hún býr við að ýmsu öðru leyti.
    Þetta með að vera þindarlaus er nú málvenja, hæstv. forsrh., og er sennilega það ég best veit komið til af því að menn trúðu því hér áður fyrr a.m.k., áður en líffræðin komst á það stig í landinu sem síðar varð, að refurinn væri þindarlaus og þess vegna væri hann slíkur hlaupagarpur sem raun bar vitni. Og refurinn er auðvitað frár á fæti eins og við vitum og mundi hlaupa okkur báða af sér, mig og hæstv. forsrh. Þó er einn veikleiki í íþróttamennsku refsins og hann er sá að hann er frekar lélegur að hlaupa niður í móti. Það skapast af því hvernig hann er vaxinn og byggður að afturlappirnar eru öllu sterkari en framlappirnar og hann lendir stundum í baksi þegar hann er á leið niður brekkuna. Það er nákvæmlega það sem hæstv. ríkisstjórn er líka að gera þessa dagana.