Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

147. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 22:21:00 (6723)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins nefna vegna þess sem hv. þm. nefndi um heildarskuldir sjávarútvegsins og það sem hefði verið um það rætt að það er hygg ég allt rétt hjá honum í öllum meginatriðum, en vandamálið er þó það að við getum ekki rætt um sjávarútveginn eins og hann sé eitt fyrirtæki, eins og hann sé sjávarútvegurinn Ísland hf. Hann er það ekki. ( StG: Ekki fremur en aðrar greinar.) Ekki fremur en aðrar greinar, það er hárrétt, hv. þm., en það leiðir hins vegar til þess að því fer fjarri að þó að meðaltalstölur séu birtar þýði það að sérhvert fyrirtæki hafi verið án vandræða á einhverju tilteknu tímabili. Tölur um afkomu þeirra fyrirtækja margra hverra sýna hið gagnstæða og reyndar örlög sumra þeirra. Er ég þá ekki að deila neitt sérstaklega við hv. þm. Ég hygg að það sé enginn ágreiningur milli okkar um þessi atriði.