Samkomudagur reglulegs Alþingis 1992 o.fl.

147. fundur
Föstudaginn 15. maí 1992, kl. 22:23:00 (6725)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um samkomudag reglulegs Alþingis 1992 o.fl. Frv. ber það með sér að lagt er til að að þessu sinni komi reglulegt Alþingi saman mánudaginn 17. ágúst og þann dag ljúki 115. löggjafarþingi.
    Um þetta frv. þarf út af fyrir sig ekki að hafa mörg orð. Það er niðurstaða af samningum þingflokkanna hér á Alþingi þegar þeir voru að leita leiða til þess að samræma sín sjónarmið um það með hvaða hætti væri hægt að haga hinni þinglegu meðferð um Evrópskt efnahagssvæði hér á þinginu. Ég vil nota tækifærið og færa mönnum þakkir fyrir samstarfsvilja í þessum efnum og vonast til þess að þrátt fyrir að skoðanir séu auðvitað skiptar um þetta stóra og mikla mál, þá geti menn sæmilega unað við þær verklagsreglur sem þingflokkarnir komu sér saman um.
    Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og allshn.