Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

147. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 00:02:05 (6730)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil geta þess vegna þess sem hv. 6. þm. Vestf. nefndi að þó að þess sé ekki getið kannski í efnisyfirlitinu er í pésanum þeim arna getið nokkuð um byggðamál, en það er rétt hjá hv. þm. að þess mun ekki getið í efnisinngangi.
    Hv. þm. ræddi þessi sömu mál hinn 4. nóv. sl. og vitnaði í að hún hefði heyrt á förnum vegi fyrir vestan fólk sem hefði rætt við hv. þm. og sagt að mikilvægast af öllu nú væri að vextir lækkuðu, skuldbreytingar yrðu í sjávarútvegi og fleiri ráðstafanir aðrar kæmu fram. Það vill svo vel til, þó að það sé kannski ekki til fyrirmyndar að umræður hafi dregist um hálft ár, að það hefur þó gerst það sem hv. þm. vonaðist til og viðmælendur hv. þm. að vextir hafa lækkað og skuldbreytingar hafa verið gerðar og nú á þessum þingfundi í dag hafa frekari aðgerðir verið ræddar þannig að að þessu leyti til hefur hv. þm. orðið að ósk sinni.