Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

147. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 00:03:17 (6731)


     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vissulega fletti ég lengra en í efnisyfirlitið yfir þessa bók, hvítbók ríkisstjórnarinnar. Ég hef lesið hana mjög vel og vandlega og það er alveg rétt að sums staðar koma mál sem hægt er að tengja byggðamálum, samgöngumál og öll mál eru byggðamál, en enginn sérstakur kafli er þó tileinkaður þeim málum.

    Í öðru lagi gat hæstv. forsrh. um að mér hefði orðið að ósk minni um það sem ég ræddi fyrr í haust um byggðamálin. Þá ræddi ég mikið um vexti og stöðu sjávarútvegsins. Vextir hækkuðu mikið um leið og hæstv. ríkisstjórn tók við völdum og þá var því lofað að þeir mundu lækka strax á því hausti, haustinu 1991. Ég er ekki í vafa um það að vegna þess að það gerðist ekki er staða atvinnufyrirtækjanna og ekki hvað síst sjávarútvegsins einmitt sú sem hún er. Það hefði verið nauðsynlegt að þessir vextir hefðu getað lækkað á þeim tíma sem ríkisstjórnin hafði stefnt að. Vissulega fagna ég því að það skuli vera á döfinni núna að gera sértækar ráðstafanir í sjávarútvegi og að við erum að ræða í þinginu í góðu samkomulagi allra flokka að gera þessar sértæku ráðstafanir. En það var líka það sem við ræddum um í haust þegar verið var að byrja að ræða byggðamál, en þá var hæstv. ríkisstjórn alls ekki á þeim nótum að það þyrfti neinar sértækar ráðstafanir.