Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

147. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 00:12:00 (6738)


     Steingrímur J. Sigfússon (um þingsköp) :
    Herra forseti. Mér finnst hæstv. forseti vera óþarflega stífur. Það er ekki venjan að fara strax að tala um alvarlegar tafir á umræðum þó að menn eigi örstutt orðaskipti um tilhögun fundahalds þegar þannig háttar til eins og hér er gert. Það er alvenjulegt við slíkar aðstæður og þegar þessi tími sólarhrings er kominn að menn beri sig aðeins saman um hvernig háttað er til fundahaldinu.
    Ástæðuna til að ég spurði skýrði ég, að það væru kannski ýmsir hér í húsinu sem ekki hafa viljað fara úr húsi á meðan enn gæti komið til að ný mál yrðu tekin á dagskrá en vildu gjarnan fá í það niðurstöðu og það sem fyrst. Það var þess vegna fullkomlega eðlilegt að beina þessari spurningu til forseta og láta á það reyna hvort hæstv. forseti treysti sér til að úrskurða um það. Ég lagði til við hæstv. forseta að hann tæki af skarið og fullvissaði okkur um að úr því að komið væri miðnætti og rúmlega það, þá mættu þingmenn treysta því að ekki yrðu tekin fyrir ný dagskrármál. Að sjálfsögðu var ekki af minni hálfu ætlunin að tefja á nokkurn hátt fyrir þessari langþráðu byggðaumræðu, enda tel ég ekki að ég hafi gert það og ég tel að orð forseta um það hafi verið óþörf þar sem það geti ekki flokkast undir tafir eða athafnir í þá veruna að spyrjast fyrir um tilhögun fundahalds eins og við höfum verið að gera. Ef það stendur að hæstv. forseti treystir sér ekki til þess að verða við þessum óskum okkar eða fallast á tillögur um að ný mál verði ekki tekin fyrir, þá verðum við auðvitað að una því. En ég hefði talið miklu meiri myndarbrag að því af hálfu forseta ef hann hefði tekið af skarið og það hefði án efa haft góð áhrif á andrúmsloftið og heilsu manna o.fl.