Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

147. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 00:14:00 (6740)


     Guðmundur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Einhvern tíma á haustdögum barst hv. alþm. svohljóðandi bréf frá skrifstofu Alþingis, að vísu ódagsett, þess vegna segi ég einhvern tíma á haustdögum því að ég man ekki lengur alveg nákvæmlega hvenær það var, með leyfi forseta:
    ,,Ársskýrsla Byggðastofnunar 1990.
    Um leið og útbýtt er til þingmanna ársskýrslu Byggðastofnunar fyrir árið 1990 er minnt á að umræða um skýrsluna fer fram mánudaginn 4. nóv. nk., þ.e. fyrsta föstudag eftir þinghlé, sbr. starfsáætlun Alþingis 1991--1992. Umræðan hefst með framsöguræðu forsrh. Stefnt er að því að ljúka umræðum þennan dag.``
    Umræða þessi hefur nú staðið nokkuð lengi, virðulegi forseti, af því að hún hófst þennan dag, 4. nóv. 1991, hélt áfram 26. nóv. 1991 og síðan e.t.v. væntanlegt að henni ljúki 16. maí 1992. Að vísu með nokkrum hléum hvað svo sem söguskýrendur kunna síðan að geta sagt um þessa ítarlegu og löngu umræðu þegar menn minnast hennar síðar hvort heldur það er nú í gamni eða alvöru. En umræða þessi hefur verið ítarleg og margt komið fram í henni þannig að ég ætla ekki að taka í hana mjög langan tíma. Ég vonast til þess að þær óskir sem hæstv. forseti setti fram áðan og ég hygg að flestir þingmenn geti tekið undir standi, að umræðu ljúki nú áður en mjög langt líður.
    Það hefur hins vegar valdið nokkurri umræðu í þinginu og ekki síst virðist það hafa valdið hæstv. forsrh. nokkru hugarangri hversu lengi þessi umræða hefur staðið, hversu ítarleg hún hefur verið og hvernig menn hafa hagað hér máli sínu og á það kannski ekki síður við um stjórnarliða en okkur stjórnarandstæðinga. Og ég verð að segja það, virðulegi forseti, að það eru mér nokkur vonbrigði hvernig hæstv. forsrh. hefur á stundum talað til þingmanna. Mér finnst hann hafa á stundum lítilsvirt þá með ummælum sínum um það hvernig þeir hafa varið tíma sínum í hv. Alþingi og þá, eins og ég sagði áðan, ítrekað vitnað til þessarar sérstöku umræðu þó svo að hann hafi vissulega talað um málflutning um ýmis önnur mál og verður ekki skoðað öðruvísi en lítilsvirðing við þingræðið.
    Alþingi Íslendinga er umræðuvettvangur. Það er vettvangur til stjórnmálalegra skoðanaskipta milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Það er sá vettvangur sem við stjórnarandstæðingar höfum til að ræða við hæstv. ríkisstjórn og þá hv. þm. sem hana styðja og fá fram þeirra skoðanir, sjónarmið og viðhorf og við hljótum að vilja og ekki bara vilja heldur krefjast þess að hæstv. ríkisstjórn og ekki síst hæstv. forsrh. virði þann rétt þó að það kunni að taka nokkurn tíma og sé e.t.v. ekki alveg í samræmi við það hvernig hann hefur hagað sér í sínum fyrri störfum og þær venjur sem hann kann að hafa búið við á sínum fyrri vinnustað. Um það ætla ég ekki að ræða frekar eða eyða lengri tíma í. Ég þekki það ekki öðruvísi en af afspurn, en af þeirri afspurn gæti maður haldið að þau vinnubrögð hafi einkennst nokkuð af einræðislegum tilhneigingum sem ég vona að verði aldrei leidd inn í hv. Alþingi.
    Hæstv. forsrh. er reyndar að koma í salinn núna. Ég tók nú reyndar ekki eftir að hann var ekki í sæti sínu, en ég ætla ekki að endurtaka þetta, hæstv. forseti. Ég var þó aðeins að leyfa mér að vera með nokkra ádrepu til hæstv. forsrh. og hann staðfestir að hafa hlýtt á það.
    En mig minnir að ég hafi heyrt það í þessum umræðum af hans vörum áður að honum hafi komið nokkuð á óvart að þingmenn skyldu fjalla svo almennt um byggðamál, um atvinnumál og um stefnu ríkisstjórnar í þessum málaflokkum undir þessari umræðu sem ætti kannski fyrst og fremst að snúast um ársskýrslu Byggðastofnunar fyrir árið 1990 sem ég hef hér í höndum og vissulega er umræðuefnið. En ég leyfi mér að minna hæstv. forsrh. á að hann hóf sjálfur sína ræðu 1991, hinn 4. nóv., með þeim orðum að hann ætlaði fyrst að fjalla um starfsemi Byggðastofnunarinnar og þessa skýrslu fyrir árið 1990 en síðan fara almennum orðum um byggðamál og stefnu ríkisstjórnarinnar í þeim málaflokki þannig að auðvitað er umræðan opnuð og leidd inn á þetta svið af hæstv. forsrh. sjálfum og vona ég þess vegna að mér leyfist líka að verja í það nokkrum tíma. Ég lofaði áðan að hafa hann ekki mjög langan og ætla að standa við það að fjalla almennt um ástand byggða- og atvinnumála og viðhorf mitt til stefnu ríkisstjórnarinnar í því sambandi.
    Ég sagði áðan að stjórnarliðar hafi tekið þátt í þessari ítarlegu og löngu umræðu ekkert síður en stjórnarandstæðingar og okkur hafi kannski tekist betur að eiga nokkur skoðanaskipti við stjórnarliðana í þessum umræðum en sumum öðrum vegna þess að þeir hafa ekki verið beislaðir í þessari umræðu, þeir hafi fengið að tala eða e.t.v. hafa þeir tekið sér þann rétt þrátt fyrir að í sumum öðrum málum finnist okkur að það hafi verið erfitt að eiga skoðanaskipti við hv. stjórnarliða, hv. þm. sem styðja núv. hæstv. ríkisstjórn. Þó við höfum ítrekað reynt að inna þá eftir afstöðu þeirra til ýmissa mála, þá hafa þeir komið sér undan því að taka þátt í þeirri umræðu og greina frá hugmyndum sínum og afstöðu hér í ræðupúlti. Ég ætla ekki að draga upp einstök dæmi í því efni, það er ástæðulaust því að þau eru fjölmörg, en ég gæti þó nefnt það að ég hef nokkrum sinnum spurt hv. stjórnarliða þegar hér hafa verið rædd málefni heilbrigðisþjónustunnar í landinu hvort þeir væru sammála öllum aðgerðum hæstv. heilbrrh. á því sviði og hæstv. ríkisstjórnar, en þeir hafa oftar en ekki þagað þunnu hljóði við slíkum fyrirspurnum. Í þessari umræðu hafa þeir hins vegar tekið meiri þátt og ég hygg að það megi rekja til þess að þeir séu sjálfir, hv. þm. ríkisstjórnarflokkanna, óánægðir með þá stefnu eða ættum við kannski að segja frekar stefnuleysi sem ríkir af hálfu hæstv. ríkisstjórnar í byggða- og atvinnumálum og þarf reyndar ekki annað en vitna til hvítbókarinnar svokölluðu eða þeirrar bókar sem er stefna og starfsáætlun ríkisstjórnarflokkanna með yfirskriftina ,,Velferð á varanlegum grunni``, vitna til hennar annars vegar og þeirra fáu setninga sem fjalla um byggðamál í þeirri ,,ágætu`` bók og hins vegar til þeirrar reynslu sem við höfum nú af störfum þessarar ríkisstjórnar á einu ári og afstöðu hennar til uppbyggingar atvinnumála í landinu.
    Ég vil leyfa mér, virðulegi forseti, að grípa niður á tveimur stöðum í stefnu- og starfsáætlun stjórnarflokkanna og hef þá reynt að leita að því sem sagt er um byggðamál og segir þar annars vegar, með leyfi forseta:
    ,,Sú byggðastefna sem rekin hefur verið hefur ekki skilað tilætluðum árangri.`` Og síðar: ,,Við svo búið verður ekki lengur unað. Undirstöðuatvinnuvegir þjóðarinnar verða að búa við sanngjörn kjör, stöðugleika og heilbrigð rekstrarskilyrði. Ríkisstjórnin mun með almennum aðgerðum styðja viðleitni til að byggja upp iðnað og þjónustu . . . `` Og síðar:
    ,,Ríkisstjórnin mun á kjörtímabilinu beita sér fyrir því að stofnunum og þjónustu á vegum ríkisins verði komið fyrir utan höfuðborgarsvæðisins eftir því sem hagkvæmt þykir.``
    Ég ætla til að byrja með að láta þessar tilvitnanir nægja og auðvitað er þetta afar almenns eðlis sagt. Það geta sjálfsagt allir tekið undir það að atvinnuvegir þjóðarinnar verða að búa við sanngjörn kjör. Þeir verða að búa við stöðugleika, þeir verða að búa við heilbrigð rekstrarskilyrði. En ríkisstjórnin segir síðan að hún ætli að vinna að þessum almennu aðgerðum. Þær almennu aðgerðir hafa nú fyrst og fremst verið almennt afskiptaleysi og hefur sumum hv. þm. þótt við hæfi að kalla það ,,kemur-mér-ekki-við``-stefnu ríkisstjórnarinnar og ég hygg að það séu orð að sönnu. Og síðan þegar talað er um að flytja stofnanir eða koma þeim fyrir utan höfuðborgarsvæðisins hefur lítið orðið úr því, hugmyndir reyndar ekki margar nema ef vera mætti nokkur upptalning sem hv. þm. Matthías Bjarnason lét falla hér í þessum sömu umræðum einhvern tíma í haust og benti ríkisstjórninni á ýmsa þætti í starfi hins opinbera sem gætu farið fram annars staðar en hér í höfuðborginni, en það hefur ekki verið hlustað á hann í því máli frekar en kannski sumum öðrum.
    Síðar í þessari ,,ágætu`` bók ríkisstjórnarinnar segir, með leyfi forseta, undir kafla um samgöngu- og ferðamál:
    ,,Ríkisstjórnin hyggst styrkja þjónustu- og vaxtarsvæði utan höfuðborgarsvæðisins með aðgerðum í samgöngumálum.`` Og síðar: ,,Endurskoðuð vegáætlun verður lögð fram á Alþingi haustið 1991 í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum.`` Og var lögð sérstök áhersla á það að þar ætti nú að taka til hendinni og treysta og auka samgönguframkvæmdir, enda væri það ein af meginforsendum fyrir

styrkari byggðaþróun.
    Nú er það svo hvað þetta varðar að það er kannski fyrst að nefna að auðvitað hefur verið reynt með öllum ráðum að draga máttinn úr Byggðastofnun, þeirri stofnun sem hefur þó haft það hlutverk fyrst og fremst að reyna eftir mætti að stuðla að styrkari þróun byggðar í landinu og öflugra atvinnulífs út um land. Mátturinn hefur verið dreginn úr þeirri stofnun af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Nægir þar að benda á það að fjárveitingar hafa stórlækkað, úr 250 millj. 1991 í 180 millj. samkvæmt fjárlögum þessa árs, og sama má reyndar segja um hinn mikilvæga þáttinn sem hér var undirstrikaður, að ætti nú aldeilis að taka til hendinni og auka samgönguframkvæmdir. Þar er líka horfið frá fyrri hugmyndum og áætlunum og framkvæmdafé til Vegagerðarinnar eða vegamála lækkað um 20% frá því sem áður hafði verið áætlað. Það eru nú átökin sem hæstv. ríkisstjórn hefur staðið fyrir á þessu sviði eða ætlar sér að gera á þessu ári.
    Einnig má bæta við þessa upptalningu af því að við erum að tala um uppbyggingu og eflingu atvinnulífs úti á landi og þá kannski ekki síst í sveitum landsins að framlag í Framleiðnisjóð landbúnaðarins, sem hefur það hlutverk sérstaklega að styrkja atvinnulíf í sveitum vegna búháttabreytinga og þeirra breytinga sem óhjákvæmilegar eru í landbúnaðinum, var skorið niður um helming, 340--360 millj. kr. Þannig var staðið við bakið á þeim aðilum sem þar eiga um sárt að binda og eru erfiðleikarnir þó enn meiri fram undan en við höfum þurft að glíma við í þessu efni eins og menn vita og var m.a. rætt í hv. Alþingi í dag. Inn á það kom reyndar hæstv. forsrh. nokkuð í ræðu sinni þegar hann hóf þessa umræðu í haust og nefndi hvernig til hefði tekist í uppbyggingu nýrra atvinnugreina, þ.e. loðdýrarækt og fiskeldi, sem áttu að taka við að verulegu leyti af hinum hefðbundnu greinum landbúnaðarins, og spyr hér hvort hv. þm. hafi fundist þessi stefna haldgóð og hvort þær aðgerðir sem þá var gripið til hafi bætt stöðu landsbyggðarinnar. Síðan svarar hann sér sjálfum og svarar auðvitað með nei-i, enda vita allir, því miður, hvernig tekist hefur til eða hvernig til tókst hvað varðar þessar tvær atvinnugreinar sem vissulega voru bundnar miklar vonir við. Og ég hygg að það hafi nú ekki verið aðeins af hálfu hæstv. fyrrv. ríkisstjórnar, ekki þeirrar sem seinast sat á undan þessari, heldur kannski ríkisstjórnum þar á undan líka og hv. þm. úr öllum flokkum sem bundu miklar vonir við að vel mætti takast til í uppbyggingu þessara nýju búgreina. Ég hefði gjarnan viljað spyrja hæstv. forsrh. hvort hann áliti að á þeim tíma þegar ákvarðanir voru teknar hafi menn tekið kolrangar ákvarðanir í þeirri stöðu sem menn voru þá. Við getum sagt það í dag að þær hafi verið rangar af því að reynslan hefur orðið bitur og áætlanir ekki staðist eða gengið eftir. Ég held, og ég þykist muna það rétt, að það hafi verið í tíð ríkisstjórnar sem Sjálfstfl. átti aðild að að tekin var ákvörðun um að setja stórkostlega fjármuni í uppbyggingu fiskeldis, er í ljós kom að við gátum ekki selt þau seiði sem búið var að ala upp. Þá var tekin ákvörðun um að ala þessi seiði í sláturstærð og reyna að gera úr þeim matfisk og verðmæti mikil. Þeir sem þá sátu við stjórnvölinn gerðu það örugglega í góðri trú þó að þeim væri ljóst að áhættan væri nokkuð mikil. Það er hægt að segja í dag að þar hafi verið um geysilega offjárfestingu að ræða sem við glímum nú við og eigum í erfiðleikum með. En ég held að þeim mönnum sem tóku þær ákvaraðanir á þeim tíma hafi kannski ekki verið annað fært eða ég a.m.k. vil ekki í dag gagnrýna þá ákvörðun eins og aðstæður voru þegar hún var tekin. Og talandi um offjárfestingu held ég að það megi segja að hún sé víðar finnanleg en í loðdýraræktinni og fiskeldinu. Menn hafa bent á að hún sé víðar í landbúnaðinum og hún sé í sjávarútveginum. En ætli hún sé ekki í þjónustunni æðimikið líka. Ætli hún sé ekki í einkageiranum, ekki síst hér á höfuðborgarsvæðinu, og lýsi sér í offjárfestingu í verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Það mætti segja mér að það séu víðar gerð mistök en hjá þeim sem fara með opinbera stjórnsýslu og það kunni að hafa áhrif á efnahagslíf þjóðarinnar í heild.
    Í ræðu sinni í haust nefndi hæstv. forsrh. nokkur atriði í viðbót sem hann taldi að illa hefði tekist til með. Benti hann m.a. á þá miklu erfiðleika sem blasa við í sauðfjárræktinni og gera enn og ég nefndi áðan að hafa verið hér til umræðu í þinginu nýlega og ég ætla ekki að eyða löngum tíma í nú en eru það alvarlegs eðlis að ríkisstjórnin og stjórnvöld og Alþingi hljóta að verða að horfa á það mál sérstaklega og grípa til allra þeirra leiða sem mögulegt er til þess að draga úr því áfalli sem það hlýtur að hafa, ekki aðeins fyrir það fólk sem verður fyrir barðinu á fyrirsjáanlegum viðbótarniðurskurði í sauðfjárrækt heldur fyrir þróun byggðar og atvinnulífs almennt og líka fyrir það fólk sem vinnur við þá þjónustu sem þessi grein landbúnaðarins veitir í byggðarlögum víða um land. Það eru ekki bara einhver hundruð eða jafnvel þúsund störf í sveitum sem um munar, en í ræðu sinni vitnaði hæstv. forsrh. til þess að þar kynni að vera um að ræða 1.000 ársverk í sveitum, ég hygg að þau gætu orðið enn þá fleiri í kaupstöðum og kauptúnum þegar allt er tínt til.
    Hann nefndi einnig að fyrirsjáanlegt var og er enn að bygging álvers á Keilisnesi muni dragast, kannski dregst hún svo mikið að við vitum ekki hvenær eða hvort af henni verður yfirleitt, og einnig erfiðleikana í sjávarútveginum, en sá þó að vísu bjartari horfur fram undan. Hann átti sér draumsýn í samskiptum við útlönd í gegnum væntanlega samninga. Nú ætla ég ekki að gera lítið úr því að það er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að eiga góð samskipti og það er nauðsynlegt að eiga góð samskipti og gera góða samninga við útlendinga um markað fyrir okkar vörur, en ég vil þó vara við þeirri hugsun, sem mér finnst æðioft koma fram hjá hæstv. ríkisstjórn og sumum hæstv. ráðherrum, að draumsýnin sé í útlöndum og það sé allt betra hinum megin við girðinguna eða hinum megin við lækinn og það sé nánast sú framtíðarsýn sem þessir ágætu núverandi landsfeður okkar hafa.
    Ég lýsi óánægju minni með það og áhyggjum að mér virðist sem gjaldþrotastefnan og atvinnuleysið sé það hagstjórnartæki sem hæstv. núv. ríkisstjórn horfir mest til til þess að stjórna efnahagsmálum í landinu og lýsi andstöðu minni við þá aðferð til efnahagsstjórnunar. Það kann að vera og við vitum það að sum önnur lönd hafa valið þessa leið til þess að halda stöðugleika í efnahagslífi, til þess að halda niðri verðbólgu, að búa við viðvarandi ákveðið atvinnuleysi og er það svo í sumum löndum í kringum okkur að það er orðið gífurlegt, skiptir orðið jafnvel tugum prósenta ef litið er t.d. til Mið-Evrópuríkja, en það er það reyndar líka í nágrannalöndum okkar þegar atvinnuleysi í Finnlandi er kannski orðið á bilinu 15--20% svo að eitthvert af okkar nágrannaríkjum sé nefnt. Þá geta menn kannski sagt að 2,5--3% atvinnuleysi hér séu ekki stórar prósentutölur miðað við það. En það hefur verið okkar aðalsmerki að búa við efnahagslíf þar sem menn hafa verið lausir við atvinnuleysið algerlega. Við höfum búið við kannski 0,5--1% atvinnuleysi. Þá hljótum við að hafa áhyggjur af því ef það er komið í 3% og ég hygg reyndar að það stefni enn hærra og veit að það er enn hærra á einstökum stöðum. Jafnvel þó að meðaltal kunni að vera í kringum 2,5--3% veit ég það og við vitum það öll að í vetur hefur atvinnuleysið verið enn þá meira á ákveðnum stöðum og ákveðnum svæðum. (Gripið fram í.) Og hvað kostar þetta okkur svo ef þetta verður viðvarandi ástand og við ætlum okkur að sætta okkur við það eins og mér finnst hæstv. ríkisstjórn vera að gera og óttast og reyndar sé ekki annað en þetta sé hluti af hennar efnahagsstjórn og hennar hagstjórnartæki? Ég hygg að ég fari rétt með að það kunni að kosta yfir 1 / 2 milljarð, kannski 600 millj. hvert prósentustig atvinnulausra í landinu. Þá sjá menn hvers lags gífurlegar upphæðir það eru sem fara til greiðslu atvinnuleysisbóta og hlýtur að vera nær að huga að því hvort ekki megi nýta það fjármagn betur til arðbærrar atvinnuuppbyggingar.
    Og það er ekki nóg með að þetta virðist vera hagstjórnartæki og beinlínis efnahagsaðgerð ríkisstjórnar heldur hefur ríkisstjórnin þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar um að draga úr sköttum, a.m.k. voru þær yfirlýsingar gefnar af fjölmörgum núverandi hv. stjórnarliðum fyrir síðustu kosningar, fyrir eins og einu og hálfu ári eða svo, þá hefur nú reyndin og reynslan verið allt önnur. Hæstv. ríkisstjórn hefur verið að hækka skattana og menn hafa orðið rækilega varir við það.
    Ég leyfi mér að nefna hérna t.d. aðeins einn skatt af því að við erum að tala um byggðastefnuna og dreifbýli. Það er hafnarskatturinn nýi, það er álagið á dreifbýlið sem það í raun er kannski fyrst og fremst og verður margfalt á við það sem er í höfnum þar sem vörur koma og þurfa ekki að hafa nema einn viðkomustað. Ég veit dæmi þess að þetta gjald kann að leggjast þrefalt á vörur sem hafna að lokum hjá neytendum úti í dreifbýlinu. Ef þeim er skipað upp í einni höfn hér á suðvesturhorninu, skipað út í annarri og síðan upp í þeirri þriðju úti á landi, þá býr fólk sem á síðan að kaupa eða greiða fyrir þá vöru við mikið meira álag en þeir neytendur sem hér búa og er þá aðeins einn þátturinn enn sem eykur á aðstöðumun þeirra sem búa í dreifbýli annars vegar og þéttbýli hins vegar hér á suðvesturhorninu.
    Við höfum rætt oftar en einu sinni og oftar en tvisvar um aðgerðir til úrbóta fyrir dreifbýlisverslunina og ég man ekki betur en hv. þm. stjórnarliðsins sumir hverjir hafi tekið þátt í því. Ég hygg að ég muni rétt og geti nefnt hv. 5. þm. Austurl. Gunnlaug Stefánsson til því efni, að hann hafi spurt hæstv. ráðherra, og þá auðvitað kannski fyrst og fremst hæstv. viðskrh. úr sínum eigin flokki, um aðgerðir ríkisstjórnarinnar til þess að draga úr þessum mikla aðstöðumun og hvernig eigi að fást við vanda dreifbýlisverslunarinar, en auðvitað á þeim bæ verið fátt um svör.
    Það kann að vera að menn spyrji þá: Hvað hyggst Framsfl. gera? Hvað viljum við leggja til sem erum að fara fram með gagnrýni á hendur ríkisstjórninni hvað þessi mál varðar? Það vill svo til að við þingmenn Framsfl. höfum lagt fram æðimörg frumvörp og þingsályktunartillögur í vetur sem sýna okkar stefnu og mig langar til þess að vitna, með leyfi forseta, til skýrslu sem unnin var af nefnd á vegum þingflokksins þar sem nefndar eru nokkrar tillögur sem varða þennan málaflokk. Hér er í fyrsta lagi nefnt:
    1. Byggðastofnun fái ótvíræðan rétt til frumkvæðis við áætlanagerð jafnframt því að vinna að langtímaáætlunum um eflingu byggðar.
    2. Byggðastofnun fái mjög aukin framlög til starfsemi sinnar. Mikilvægt er að Byggðastofnun starfi ekki sem almennur stofnlánasjóður.
    3. Stjórnkerfi og stjórnsýsla verði endurskoðuð og endurmetin í því skyni að efla frekar sjálfsforræði byggðar í landinu.
    4. Stjórnsýslumiðstöðvum verði þegar komið upp í öllum kjördæmum utan höfuðborgarsvæðisins og margvísleg þjónustustarfsemi þess opinbera flutt frá Reykjavík til stjórnsýslumiðstöðvanna.
    5. Sambönd sveitarfélaga verði virkari við gerð tillagna um opinberar framkvæmdir.
    6. Staða dreifbýlisverslunar verði endurmetin og ríkisvaldið hafi frumkvæði um aðgerðir er leiði til bættrar stöðu dreifbýlisverslunar í landinu.
    7. Endurskoðun fari fram á vöruflutningum innan lands með það að markmiði að auka hagkvæmni og lækka rekstrarkostnað.
    8. Framkvæmdir byggðar á langtímaáætlun í samgöngumálum verði auknar og fjármagn tryggt með föstum tekjustofnum. Hagkvæm langtímalán verði tekin til stórframkvæmda sem hafa mikla arðsemi.
    Ég læt tilvitnun lokið hér, hæstv. forseti, en vildi aðeins benda á þetta sem dæmi um það sem við höfum sett fram sem stefnumál af okkar hálfu og við höfum fylgt þeim eftir með mörgum tillögum sem hníga í þessa átt hér í þingi í vetur og við munum halda áfram að reyna að fylgja þeim eftir.
    Einn af þingmönnum Framsfl., hv. þm. Stefán Guðmundsson, var formaður í nefnd á vegum forsrh. um skipulag Byggðastofnunar og aðgerðir í byggðamálum og skilaði sú nefnd áliti snemma á seinasta ári, í febrúar 1991, þar sem einnig er lögð áhersla á þessi sjónarmið, meiri ábyrgð til heimamanna og meira vald heim í héruðin. Ég álít að það sé vænlegast til árangurs í sambandi við öflugra starf, öflugri uppbyggingu atvinnulífs og þjónustu úti á landsbyggðinni. Við framsóknarmenn leggjum áherslu á það að slíkt sé gert í fullu samkomulagi við sveitarfélögin í landinu.
    Það er ekki langt síðan menn komu sér saman um ákveðna verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og sú niðurstaða fékkst eftir mikil fundahöld, eftir miklar viðræður um það hvernig að því skyldi staðið. Ég hygg að hæstv. núv. forsrh. hafi átt sinn þátt í því að koma því samkomulagi á sem forsvarsmaður stærsta og öflugasta sveitarfélagsins í landinu á þeim tíma. Ég er þess vegna eins og sjálfsagt miklu fleiri hv. alþm. undrandi á því að ríkisstjórn undir forsæti þessa fyrrv. forsvarsmanns stærsta sveitarfélagsins í landinu, núv. hæstv. forsrh., skyldi grípa til þess að knýja fram einhliða aðgerðir gagnvart sveitarfélögunum í landinu og setja á sveitarfélögin nýja skatta undir formerkjum ákveðinna orða, ég leyfi mér að segja orða eins og lögregluskatts, kalla slíka nýja skatta, nýjar álögur á sveitarfélögin lögregluskatt sem auðvitað á ekki nokkurn skapaðan hlut skylt við lögreglu í þessu landi, ekki nokkurn skapaðan hlut því sveitarfélögin hafa ekkert frekar um löggæslumál að segja eftir en áður. Þetta er auðvitað ekki annað en hreinn og beinn skattur, þar að auki nefskattur, á sveitarfélögin í landinu.
    Nei, ég held að þannig sé ekki hægt að starfa og eigi ekki að starfa og útilokað fyrir sveitarfélögin að sætta sig við slíkar stjórnvaldsaðgerðir þó að það virðist vera það sem nú snýr helst upp í aðgerðum núv. ríkisstjórnar að fara fram með valdboði af þessu tagi gagnvart t.d. sveitarfélögunum í landinu.
    Virðulegi forseti. Ég lofaði að tala ekki mjög lengi. Ég hef reyndar þegar talað lengur en ég ætlaði mér og skal reyna að stytta mál mitt. En ég get þó ekki lokið því öðruvísi en fjalla örlítið um þá vaxtastefnu sem núv. hæstv. ríkisstjórn hefur haft í frammi, haldið uppi, hratt af stað verulegum vaxtahækkunum strax og hún kom til valda, en hefur þó reyndar á seinustu dögum snúið sér að því að lækka vextina aftur --- og merkilegt nokk, með handafli auðvitað. Það veit hvert mannsbarn, hvað sem hæstv. ráðherrar kunna að segja um það mál, að þá er þetta aftur í tengslum við kjarasamninga með handafli. Er nú reynt að lækka vextina nokkuð þó að ég haldi því fram að þeir séu enn of háir, bæði nafnvextir og raunvextir, og það þurfi að stíga stærri skref í þessu sambandi ef það á að koma atvinnulífinu til góða, atvinnulífi sem hefur þurft að bera ekki aðeins þessa hávaxtastefnu núv. hæstv. ríkisstjórnar heldur einnig þurft að búa við nýjar skattaálögur og frv. eitt sem hér liggur fyrir á dagskránni til umræðu, frv. um skattskyldu innlánsstofnana, veltir enn þá nýjum byrðum á atvinnulífið í landinu svo mörg hundruð millj. kr. skiptir.
    Þó að frv. um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins kunni að verða að lögum og verður það vonandi og lagar nokkuð fyrir atvinnulífinu, fyrir sjávarútveginum, fiskvinnslunni og útgerðinni í landinu, þá sýnist mér að sú útgreiðsla sem þar kemur til muni að verulegu leyti hverfa í þessa skatta- og vaxtahít hæstv. ríkisstjórnar.
    Virðulegi forseti. Það er ótal margt fleira sem hægt væri að taka upp og ræða um í þessari umræðu, en það er e.t.v. nóg komið. Það hefur þegar mikið verið rætt, margar athugasemdir og hugmyndir komið fram til umhugsunar og umræðu og eiga vonandi eftir að nýtast, bæði þessari ríkisstjórn og komandi ríkisstjórnum, til frekari stefnumótunar í byggðamálum.
    Að lokum langar mig að segja að ég tel að það hafi verið full sátt um það í landinu á árum áður að byggja upp öfluga höfuðborg. Við erum öll, landsmenn allir, sammála um að svo þurfi að vera. Það er jafnnauðsynlegt landsbyggðinni eins og höfuðborginni sjálfri. Og það eru auðvitað ýmsir þjónustuþættir í þessu fámenna þjóðfélagi sem við getum ekki staðið undir nema á einum stað og sumt af því er eðlilegt að sé í höfuðborginni þó vafalaust megi sumt af því sem þar er nú vera annars staðar og hægt væri að reka það með jafngóðu móti, ekki síst með breyttri tækni t.d. á sviði fjarskipta. En við erum ekki sátt og verðum það aldrei, ég vænti þess að það megi segja um Íslendinga alla, við að byggja upp borgríki. Og nú tel ég að höfuðborgin okkar þurfi að sýna og forsvarsmenn hennar í samráði við landsstjórnina skilning, stærsta sveitarfélagið og það öflugasta í landinu, og aðstoða í erfiðleikum landsbyggðar við uppbyggingu og eflingu nýrrar byggðastefnu. Við verðum og eigum að lifa sátt, ein þjóð í einu landi.