Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

147. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 01:24:29 (6745)

     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Já, ég get tekið undir það með forsrh. að myndir Sigmunds eru ágætar og þær voru ekki stórmál í minni ræðu. En hann minntist á það og bar sig karlmannlega að fyrstu verk hverrar ríkisstjórnar væru mikilvægust. Það er nefnilega þar sem feillinn liggur hjá þessari ríkisstjórn. Sigmund teiknaði góða mynd þar sem gaukurinn illi sat á öxl forsrh. og dritaði. Það er nefnilega ráðgjafahópurinn sem hefur brugðist. ( Forsrh.: Þú mátt ekki blanda saman við Spaugstofuna.) Jú, ég er að blanda saman við Spaugstofuna, rétt hjá hæstv. forsrh. Það mun hafa verið þar sem gaukurinn sat. --- En ég hygg að það sé þekkingarlítið ungliðalið mengað frjálshyggju. Ég get talið þá upp, þeir eru 5--6 sem hafa verið ráðgjafar hæstv. forsrh. Þeir hafa leitt hann rangar leiðir.
    Því vildi ég koma að áður en nóttin skellur á að hann hugleiði hvort það væri ekki betra að fara að eins og fyrirrennari hans sem áttaði sig á því að þessir sömu menn gerðu það að verkum að hann fékk ekki að ríkja í forsætisráðherrastóli nema í 13 mánuði því hann hlustaði á þessa sömu menn. En eftir þann tíma hefur sá maður valið sér aðra og betri ráðgjafa. Þeir koma úr atvinnulífinu. Þeir koma utan úr þjóðfélaginu sem hann hefur hlustað á. (Forseti hringir.) Þó hann hafi ekki náð því að fá menn í ríkisstjórninni til að átta sig á mörgum atriðum er staðreyndin sú að hann fann út eftir stuttan feril að það fólk sem hann var með í ráðgjafarstörfum gekk ekki upp. (Forseti hringir.) Og nú vona ég að hæstv. forsrh. átti sig einnig á því.
    Að lokum þakka ég hæstv. forseta fyrir fallegan bjölluhljóm.