Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

147. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 01:27:02 (6746)


     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Aðeins örstutt. Ég kunni ekki við að hafa það í andsvari við ræðu hv. þm. Guðna Ágústssonar, en hæstv. forsrh. vék að vinsældum ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar. Það er nokkur siður hjá hæstv. forsrh. að þegar að honum er þrengt hnýtir hann venjulega í fyrirrennara sinn, hv. þm. Steingrím Hermannsson, sem er fjarverandi nú. Mér fannst því rétt að taka aðeins upp hanskann fyrir hann augnablik.
    Það er kannski rétt að hægt er að finna einhvern smátíma á valdaferli ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar þar sem hún hafði eitthvað minni vinsældir en núv. hæstv. ríkisstjórn. En hitt er hins vegar alveg öruggt, að hæstv. forsrh. er fyrsti landsfaðirinn í sögu íslenska lýðveldisins síðan skoðanakannanir hófust sem tekist hefur að verða óvinsælasti stjórnmálamaður landsins. Það er svo sem í lagi að fjármálaráðherrarnir við og við gegni því hlutverki. Það er í þeirra verkahring. En þegar landsfaðirinn sjálfur er orðinn óvinsælasti stjórnmálamaður landsins er illa komið fyrir ríkisstjórninni.