Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

147. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 01:28:28 (6747)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Það var merkilegt að hv. 8. þm. Reykn. skyldi koma seint og um síðir inn í þessa umræðu og geta ekki einu sinni farið rétt með. Ég var ekkert að hnýta í fyrirrennara minn. Ég var að leiðrétta töflur og línurit heillar ríkisstjórnar. Ég er alveg viss um að hluti af óvinsældum þeirrar ríkisstjórnar hefur ekki síst verið hv. þm. sem áðan talaði, miklu fremur en hv. þm. Steingrímur Hermannsson, fyrirrennari minn. Ég var bara að vekja athygli á staðreyndum, hv. þm. En þú gast ekki aðeins farið vitlaust með það heldur sakaðir mig um að vera að veitast að fjarverandi manni. Ég var að tala um ríkisstjórnina í heild, leiðrétta það sem hv. þm. hafði sagt um vinsældamælingar.
    Það er nú þannig að þessar mælingar um vinsælustu og óvinsælustu stjórnmálamennina eru afar sérkennilegar og óvinsældamælingar eru, hygg ég, ekki nema þriggja ára eða svo af því að hann nefndi söguna. Í sögunni, sagði hv. þm. Menn eru varla að tala um söguna þegar menn eru að tala um þrjú ár. Ég

hygg að þær mælingar séu aðeins þriggja ára gamlar. Áður mældu menn vinsældir og ég hef reyndar stundum setið í þeirri sérkennilegu stöðu að vera á báðum endum. Í næstsíðustu könnun trónaði ég reyndar mjög neðarlega á óvinsældalista. Það hafði af einhverjum ástæðum minnkað um helming í könnuninni þar á eftir. Mér er ókunnugt um af hverju það hefur gerst, en það hafði þó gerst. En þessar kannanir segja ekki mjög mikla sögu, hv. þm. Þingmaðurinn var mjög oft á þessum stuttta ferli þessara mælinga óvinsælasta persóna í síðustu ríkisstjórn. Það hefur, hygg ég, ekki breytt neinu um hans feril sem fjmrh. í sjálfu sér og ekki held ég mati á hans flokki í sjálfu sér.