Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

147. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 01:31:38 (6750)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Herra forseti. Já, þetta er líka merkileg kenning hjá hæstv. forsrh. Hann setur fram hverja stjórnmálafræðikenninguna á fætur annarri, er greinilega hugmyndaríkur að nóttu til í stjórnmálafræðilegu tilliti.
    Það mál vel vera að hæstv. forsrh. hafi mælt í þinginu hvað menn segja oft ósatt. Það er alla vega athyglisvert að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson og hv. þm. Svavar Gestsson röktu mjög rækilega hvernig hæstv. forsrh. sagði þjóðinni ósatt í útvarps- og sjónvarpsumræðum frá Alþingi, eldhúsdagsumræðum. Því var lýst hvað eftir annað af þessum tveimur hv. þm. Hæstv. forsrh. lagði aldrei í það að hrekja þá niðurstöðu. ( Forsrh.: Hvaða niðurstöðu?) Það var sagt í umræðum í gær, hæstv. forsrh. Ég skal gjarnan endurtaka það fyrir hæstv. forsrh. Það var sú fullyrðing að það væri nauðsynlegt að frv. um Lánasjóð ísl. námsmanna þyrfti að fara í gegn á Alþingi vegna fjárlaganna, en eins og þessir tveir ágætu þingmenn bentu á hefði komið fram í lok ársins að samkvæmt því sem nú er vitað yrðu um það bil 800 millj. afgangs í Lánasjóði ísl. námsmanna, en með því var ekki reiknað í fjárlögunum. Þetta röktu þessir tveir ágætu þingmenn mjög rækilega og forsrh. sat m.a. í hliðarsal og hlustaði á það.
    En það er ekki von að tölfræðin sé þá í góðu lagi ef hann er bæði búinn að gleyma sínum eigin ósannindum og einnig sönnunum á það að þau hafi farið fram.