Atvinnuleysistryggingasjóður

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 11:42:22 (6765)

     Frsm. heilbr.- og trn. (Sigbjörn Gunnarsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Nú vil ég benda á að það mál sem hér er til umræðu er 528. mál. Hvað það mál varðar er líkast til um afar lítið aukin fjárframlög Atvinnuleysistryggingasjóðs að ræða. Hins vegar varðandi 529. mál, sem fjallar um uppbót eða inngreiðslu í samræmi við samkomulag aðila vinnumarkaðarins, er um talsverðar fjárhæðir að ræða og það er í nál. við það frv. sem farið var yfir stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs. Nefndarmenn allir nema hv. þm. Finnur Ingólfsson, sem var með fyrirvara, voru fullvissaðir um það að greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs mundu duga líklegast út nóvember og því ákvað nefndin og var sammála um að greiða fyrir því að þessi mál mættu ganga áfram í þinginu.
    Auk þess vil ég benda á aðeins til upplýsingar, virðulegur forseti, vegna þess að minnst var á frv. fjárln. að fram er komin í þinginu brtt. á þskj. 965 sem gengur út á það að lögin öðlist gildi 1. jan. 1993.