Atvinnuleysistryggingasjóður

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 11:50:00 (6769)


     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að endurtaka deilur okkar hv. 8. þm. Reykn. um stjórn mína á þingfundum. Það hefur verið gert áður í vetur. Hann hefur áður vakið máls á þessu og ég tel ekki ástæðu til að endurtaka það. Ég tel að ásakanir hans í minn garð varðandi fundastjórn séu ekki á rökum reistar og algjörlega úr lausu lofti gripnar.
    Það sem hér er til umræðu er það að hv. þm. tók til máls um allt annað mál en var á dagskrá og fór að ávíta hv. frsm. nefndarinnar fyrir að ræða annað mál heldur en dagskrármálið. Hann hafði ekki hugmynd um hvað hann var að tala eða hvaða mál væri á dagskránni og bjó til mikla rollu af algerum misskilningi og algerlega röngum forsendum. Þetta er kjarni þessa máls sem við erum að ræða hér um, virðulegi forseti, og það hefur enn sannast að hv. 8. þm. Reykn. tekur þingstörfin þeim tökum að ekki er til fyrirmyndar.