Skipaútgerð ríkisins

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 12:37:50 (6780)


     Jón Helgason :
    Herra forseti. Við ræðum hér frv. til laga um brottfall laga um Skipaútgerð ríkisins. Jafnframt hefur það komið fram að hér stöndum við frammi fyrir gerðum hlut þar sem þegar er búið að leggja niður rekstur Skipaútgerðarinnar og eigur félagsins hafa sumar hverjar verið seldar, aðrar leigðar og einhverjar munu standa ónýttar nú.
    Á síðasta hausti, í upphafi þessa þings, flutti ég ásamt öðrum þingmönnum Framsfl. frv. til laga um stofnun hlutafélags um Skipaútgerð ríkisins. Þessu frv. var vísað til samgn. en miðað við þá þróun sem varð síðan í framhaldi af því mun það frv. ekki koma meir til meðferðar á Alþingi. Ég vil aðeins vekja athygli á þessu frv. og jafnframt því að ég er sannfærður um að það hefði verið betra að fara þá leið sem það frv. gerði ráð fyrir jafnvel þó að það hefði fljótlega leitt til sömu niðurstöðu og við stöndum nú frammi fyrir, að það fækkaði um eitt fyrirtæki sem annaðist rekstur, þ.e. þetta nýja hlutafélag hefði leitað samstarfs og samvinnu eða samruna við annað fyrirtæki sem var fyrir. Ég er sannfærður um að með því að fara þá leið sem frv. gerði ráð fyrir, að stofna hlutafélag og opna leið fyrir ríkið að selja hlutabréfin, þá hefði það orðið hagkvæmara fyrir ríkið. Það hefði orðið minni breyting á þjónustu fyrir þá sem þjónustunnar nutu frá Skipaútgerð ríkisins og jafnframt er ég viss um að það hefði orðið styrkara fyrirtæki sem upp úr því hefði sprottið en það sem nú er þegar nokkur hluti fyrrverandi eigna Skipaútgerðar ríkisins hefur verið seldur öðru skipafélagi sem tekur að sér að einhverju leyti þá þjónustu sem Skipaútgerðin annaðist.

    Það kom glöggt fram í máli hv. síðasta ræðumanns að fjármunir hafa glatast við þá aðferð sem notuð var, þ.e. fyrst að draga úr rekstri Skipaútgerðarinnar áður en hann var lagður niður og minnka þannig tekjurnar og selja síðan eignirnar sína í hverju lagi og jafnvel óvíst hversu mikils virði þær eignir eru sem eftir eru. Með þessu móti er reksturinn sjálfur gerður einskis virði. Það eru því aðeins einstakir hlutar í eigu Skipaútgerðar ríkisins sem eru þarna seldir en ekki fyrirtæki í fullum rekstri með því verðmæti sem slíkt hefur alltaf í sér fólgið. Ég harma því þau vinnubrögð sem við þetta voru höfð og þó að því verði ekki breytt héðan af, nema að því leyti sem fram kemur í brtt. minni hluta samgn. þar sem samgrh. er þó veitt heimild til þess að verja einhverjum fjármunum til að tryggja samgöngur til þeirra staða sem versta hafa aðstöðu á þessu ári þar sem engin fjárveiting er til þess nú. Áreiðanlega mun koma til kasta Alþingis við næstu fjárlagagerð að líta á einhverja staði í sambandi við þann stuðning sem Alþingi veitir árlega til annarra flutningaaðila á landinu. Ég held því að það sé útilokað að segja að Alþingi og ríkið sé þar með laust við ábyrgð á þessari þjónustu og að hún verði í viðunandi horfi fyrir þá sem lakasta hafa aðstöðuna.