Skipaútgerð ríkisins

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 12:42:45 (6781)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Mér kemur mjög á óvart sá tónn sem hefur verið hér í garð þeirrar ráðstöfunar að leggja niður rekstur Skipaútgerðar ríkisins út frá þeirri reynslu sem síðan er komin af flutningum innan lands og ég er raunar líka mjög undrandi á því sem hv. síðasti ræðumaður Jón Helgason sagði áðan þegar hann lýsti því yfir að hann væri sannfærður um að það væri betri kostur að fara ekki þá leið að semja við Samskip um að taka yfir rekstur og viðskipti Skipaútgerðarinnar og ráðstafa tveim skipum til þeirra en eitt skip var selt úr landi.
    Ég vil taka það fram, vegna þess sem hér hefur komið fram, að eignir Skipaútgerðar ríkisins hafa verið seldar á markaðsverði. Skipin voru seld í fullum rekstri en eftir er að vísu að selja skemmuna við höfnina. Viðræður eru hafnar milli hafnarnefndar Reykjavíkurborgar og Skipaútgerðar ríkisins um um söluverð á þeirri eign.
    Fram er komin brtt. á þingi og voru ástæður hennar skýrðar af 1. flm., hv. þm. Jónu Valgerði Kristjánsdóttur. Kom það fram í máli þingmannsins að ástæða væri til að hafa áhyggjur af því að ýmsar hafnir hefðu orðið út undan eftir að rekstri Skipaútgerðarinnar var hætt og var Norðurfjörður sérstaklega nefndur í því sambandi. Það hefur komið fram í máli fleiri en eins þingmanns að óvíst sé um það hvort Samskip muni halda áfram reglulegum siglingum til Norðurfjarðar. Þetta er á misskilningi byggt. Samskip voru einmitt að ganga frá ferðaáætlun sinni sem er gefin út bæði á íslensku og erlendum tungumálum og þar er Norðurfjörður inni eins og áður.
    Ég vil líka út af þessu minna á að svo var um skeið að ekki voru reglulegir vöruflutningar til og frá Grímsey þó svo Skipaútgerð ríkisins væri rekin. Þá var brugðið á það ráð að styrkja flugsamgöngur til Grímseyjar og að sjálfsögðu getur komið upp sú spurning hvort rétt sé að treysta og styrkja flugsamgöngur að Gjögri til þess að mæta flutningaþörf. Það mál er auðvitað til athugunar en þá erum við að sjálfsögðu ekki að tala um 300 millj. kr. Ég vil líka taka fram að ég og formaður stjórnarnefndar Ríkisskipa höfðum ráðgert að fara um landið í vetur ef kvartanir kæmu fram vegna þess að rekstri Skipaútgerðarinnar hefði verið hætt en ekki hefur orðið af því. Það er að vísu svo að Bílddælingar leggja mikla áherslu á að hægt sé að ljúka vegi yfir Hálfdán til þess að hægt sé að mynda hafnasamlag og skipuleggja flutninga á sjó til Suðurfjarða sem ekki er hægt vegna þess þröskuldar sem Hálfdán er. Ef vegáætlun verður samþykkt, eins og hún liggur nú fyrir, næst nokkur áfangi varðandi þá leið og síðan verður reynt að vinna áfram sem er auðvitað mjög nauðsynlegt.
    Ég vil líka leiðrétta misskilning. Það hefur komið fram, m.a. frá hv. 5. þm. Vestf. Kristni Gunnarssyni sem sæti á í stjórnarnefnd Ríkisskipa, sá misskilningur að Ríkisskip hefðu haft áætlun sem þau hefðu fylgt bókstaflega í þeirri merkingu að koma inn á allar hafnir hvort sem flutningur væri þangað eða ekki. Svo var ekki. Auðvitað reyndi Skipaútgerðin að sýna hagsýni í þessu eins og önnur skipafélög og auðvitað kaus Skipaútgerð ríkisins að sleppa því að koma við á höfnum og flytja vöruna frekar landleiðina ef það þótti svara kostnaði og þótti hentugra. Skipaútgerðin hagaði sér að þessu leyti með nákvæmlega sama hætti og þau félög tvö sem nú sigla við ströndina, Samskip og Eimskipafélagið. Ég get tekið sem sérstakt dæmi Kópasker sem var eingöngu eða algerlega sinnt frá Raufarhöfn. Ég get tekið Suðureyri við Súgandafjörð sem dæmi. Það þótti yfirleitt ekki borga sig að koma þar við heldur flytja vörur landveginn þaðan. Ég man eftir því að ég hitti einu sinni umboðsmann Skipaútgerðar ríkisins á Húsavík. Þá þurfti að koma pakka þaðan til Þingeyrar og þann pakka þurfti að senda landveg í veg fyrir Ríkisskip til Sauðárkróks vegna þess að Ríkisskip kom ekki við á neinni höfn í Norðurlandskjördæmi eystra í þessari ferð. Það var alls ekki þannig að Skipaútgerðin setti upp sérstaka áætlun sem hún fylgdi bókstaflega hringinn í kringum landið.
    Eins og ég hef rakið er ekki þörf á því að halda sérstökum peningum til hag vegna þess að byggðarlög hafi orðið fyrir sérstökum vanda. Af þeim ástæðum er ekki ástæða til þess að samþykkja þá brtt. sem fyrir liggur frá minni hluta samgn., fyrir utan það sem ég skal koma að nú að afkoma Skipaútgerðarinnar á síðasta ári var ekki með þeim hætti að þar sé um neinn afgang að ræða.
    Þegar á síðasta hausti, þegar unnið var að gerð fjáraukalaga, barst beiðni frá Skipaútgerð ríkisins þess efnis að aukafjárveiting, sem nam 100 millj. kr., yrði veitt til Skipaútgerðarinnar til þess að mæta þeim halla sem var fyrirsjáanlegur á árinu. Við þessari beiðni var orðið. Nú liggja reikningar endanlega fyrir og

þá kemur í ljós að halli Skipaútgerðarinnar er 93,6 millj. kr. meiri en gert var ráð fyrir á síðasta hausti. Ef sleppt er ríkisframlögum á síðasta ári nam halli Skipaútgerðar ríkisins 315.420 þús. kr. Það var athyglisvert hjá hv. 2. þm. Vestf. þegar hann sagði að auðvitað bæri að líta á það ef sparnaður sem fælist í því að leggja niður rekstur Skipaútgerðar ríkisins gæti orðið til þess að hægt væri að flýta framkvæmdum á öðrum sviðum. Þá er kannski rétt og hollt að velta því fyrir sér hvort við erum að tala um mikla fjármuni.
    Á sl. ári var varið til nýrra þjóðvega á landinu öllu 2 milljörðum 353 millj. kr. undir þeim lið í skýrslu um vegáætlun, með öðrum orðum innan við 300 millj. kr. á ári að meðaltali á hvert kjördæmi sem er lægri tala en nam halla Skipaútgerðar ríkisins á síðasta ári. Skipaútgerðin tók meira til sín af ríkisfé en hvert kjördæmi að meðaltali í nýbyggingu vega samkvæmt skýrslu Vegagerðar ríkisins. Svo geta menn velt fyrir sér hvort við erum að tala um mikla peninga eða algert smáræði. Það var nauðsynlegt að þessar upplýsingar kæmu fram þar sem í ræðu eins þingmanns var því af misskilningi haldið fram að Skipaútgerðinni hefði tekist að standa við sínar rekstraráætlanir.
    Mér þótti það líka eftirtektarvert að stjórnarmaður í Skipaútgerð ríkisins, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, 5. þm. Vestf., skyldi segja áðan að það væri alveg skýrt að flutningamagnið hafi ekki fallið fyrr en í nóvember þegar hann talaði um Færeyjasiglingarnar. Hann sagðist hafa skýrslu um sundurliðun Færeyjasiglinganna fyrir framan sig og þess vegna væri alveg skýrt að þessi niðurstaða væri rétt. Ég hef þessa sömu skýrslu fyrir framan mig og pappírarnir og tölurnar þar eru aðrar. Þar kemur fram að flutningamagnið til Færeyja féll fyrst niður í ágúst úr 1.423 tonnum í 996 tonn milli þessara tveggja mánaða. Ástæðan var sú að Ístess, sem hafði flutt fóður til fiskeldis til Færeyja, hafði ekki lengur þau viðskipti sem áður var. Þau viðskipti féllu niður og af þeim sökum minnkaði flutningamagnið með Skipaútgerð ríkisins til Færeyja. Þetta var algerlega óviðkomandi þeirri ákvörun minni að fella niður siglingar til Færeyja því að sú ákvörðun hafði ekki verið tekin þegar þetta flutningamagn féll niður en var á hinn bóginn ein af ástæðunum til þess að sú ákvörðun var tekin. Hitt er alveg rétt að fyrirtækið Ewos átti líka viðskipti við Færeyinga með fóður til fiskeldis. Þau viðskipti féllu niður í nóvember á síðasta ári. Það var af þeim sökum sem flutningamagnið féll úr 938 tonnum í október niður í 356 tonn í nóvember og 336 tonn í desember. ( Forseti: Forseti vill vekja athygli hæstv. ráðherra á því að það var ráðgert að fresta hér fundi kl. eitt eða hálftvö. Þegar hafa þrír þingmenn beðið um andsvar við ræðu hæstv. ráðherra sem forseti vill gjarnan geta lokið áður en fundinum er frestað ef þess er nokkur kostur. Forseti vildi vekja athygli hæstv. ráðherra á þessu.)
    Hæstv. forseti. Þetta er í raun og veru nóg sem ég hef sagt. Ég hef leiðrétt nokkur atriði en vil leggja áherslu á að þær áætlanir, sem uppi voru um flutninga meðfram ströndinni þegar ákveðið var að leggja rekstur Skipaútgerðar ríkisins niður, hafa gengið fram og með betra móti en unnt var að búast við.