Skipaútgerð ríkisins

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 12:59:48 (6786)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég er óánægður með það hvernig hæstv. samgrh. kemur fram í þessu máli. Ég tel að hann hefði átt að koma til móts við okkur í stjórnarandstöðunni. Þessar brtt. okkar eru honum til þæginda. Það hefði ekki verið nema til þæginda fyrir hann og hans ráðuneyti að gildistaka laganna færðist fram til áramóta og það ætti síður en svo að vera vont mál fyrir hann að hafa aðgang að fjármagni, ef á þyrfti að halda og hann kæmist að þeirri niðurstöðu að hann mundi gera tillögu um að nýta það, til staða þar sem kæmu upp vandamál vegna flutninganna.
    Til viðbótar vil ég segja að ég hef verið upplýstur um það að þær ráðstafanir sem voru gerðar af hendi ráðherra á síðasta ári vegna Færeyjasiglinganna hafi kostað fyrirtækið 77 millj. kr. Og nú spyr ég: Er það rétt eða rangt?