Skattskylda innlánsstofnana

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 14:49:46 (6802)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er nú þannig með peninga að þeir eru eins og vatn, segja einhverjir hagfræðingar. Hér er kannski um tilfærslu á fjármunum að ræða. Við skulum hugsa okkur að við hættum við að flytja þetta frv. Þá mundi ríkissjóður þurfa að taka meiri fjármuni að láni. Þeir fjármunir verða ekki teknir nema með því að kalla eftir nýjum fjármunum sem hafa þá áhrif á vaxtastigið með sama hætti. Við verðum að átta okkur á því að við erum að tala um eina efnahagslega heild. Á þetta vil ég benda.
    Enn fremur vil ég ítreka það sem sagt hefur verið áður að þetta er ekkert brot á því, ef hv. þm. má vera að því að hlusta á, sem kemur fram í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar einfaldlega vegna þess að um þetta var vitað og einungis er um að ræða samræmingu á skattlagningu þannig að nú standa sjóðirnir, þeir sem borga skatta á annað borð, jafnfætis veðdeildum bankanna og ríkisbönkunum og borga samsvarandi skatta þannig að um verður að ræða í framtíðinni að vaxtaákvörðun sjóðanna ætti að vera með sama eða svipuðum hætti eins og ríkisbankanna. Ég get síðar komið að því hver munurinn er á hlutafélagabönkum og ríkisbönkum. Munurinn er sá að hlutafé er auðvitað dregið frá þegar til eignarskattslagningar kemur hjá hlutafélagabönkunum en hlutafé og arður myndar að sjálfsögðu skattstofn hjá eigendum þeirra banka annars staðar. Það verðum við að hafa í huga.