Skattskylda innlánsstofnana

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 14:51:00 (6803)

     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þetta var mergurinn málsins, hæstv. fjmrh. Ef sjóðirnir greiða ekki sína skatta þá verður ríkið að ná í peninga annars staðar. Þetta er nefnilega spurningin um það hver borgar, hvaðan peningarnir koma. Og það sem hér er um að ræða er það m.a. að það eru sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn sem eiga að leggja til þessar upphæðir. 150 millj. var reiknað með á næsta ári af tekjum og eignum þessa árs og við hljótum að spyrja: Er íslenskur landbúnaður og íslenskur sjávarútvegur fær um að taka þessar auknu byrðar á sig? Er ekki nær að leita að peningunum annars staðar, hæstv. fjmrh.?
    Ég þarf varla að minna á það að við kvennalistakonur höfum margoft bent hæstv. fjmrh. á leiðir til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð. Ég ætla ekki að endurtaka það hér í andsvari.