Skattskylda innlánsstofnana

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 15:21:02 (6806)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Herra forseti. Í fyrsta lagi held ég að hæstv. fjmrh. verði að viðurkenna að jafnvel samræmingarröksemdin í þessu máli stenst ekki að öllu leyti því að samræmingarvinnunni er ekki lokið. Þar eru ágallar á enn þá og peningastofnunum er mismunað eftir eignarformi þeirra. Það er því miður staðreynd og ljósasta dæmið um það er auðvitað þegar menn skoða útkomu ríkisbankanna annars vegar og hlutafélagabankanna hins vegar í þessu sambandi. Samræmingarvinnunni er því ekki lokið. Ég held satt best að segja að það hefði þurft að taka miklu heildstæðar á þessum málum áður en menn legðu út í breytingar nema þá að mjög vel athuguðu máli af þessu tagi. Menn hafa líka verið að ræða um sameiningu fjárfestingarlánasjóða og uppstokkun á því sviði. Það eru líka hlutir sem geta skipt sköpum um hvernig úr leysist.
    Hæstv. fjmrh. gerði mikið úr því að þeir ræddu oft um vanda sjávarútvegsins og það er vel. Hann svaraði því þó ekki, og hefði honum þó verið málið skylt, hvort til greina kæmi að falla frá þessari vitlausu sölu á veiðiheimildum Hagræðingarsjóðs. Ef það yrði gert mundi sjávarútvegurinn spara sér tvöfalt meiri fjármuni en lagðir verða á Fiskveiðasjóð á ársgrundvelli.
    Og að lokum er það svo, hæstv. fjmrh., að af skiljanlegum ástæðum fer forstjóri Fiskveiðasjóðs varlega í það að opinbera röksemdir sínar fyrir áhyggjum af því að þetta geti breytt trúverðugleika og lánskjörum sjóðsins erlendis. Maður sem þekkir til viðskiptahátta af því tagi, eins og hæstv. fjmrh. gerir, veit vel að svo viðkvæm mál geta menn ekki að öllu leyti rætt í fjölmiðlum. Ég vil þó segja hæstv. fjmrh. að ég tel að forstjóri Fiskveiðasjóðs og trúnaðarmenn sjóðsins sem komu til efh.- og viðskn. hafi á lokuðum fundi með nefndinni fært fram býsna trúverðugar röksemdir sem ég tók verulega mikið mark á í því sambandi.