Skattskylda innlánsstofnana

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 15:51:56 (6810)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að ræða almennt um stöðu atvinnuveganna. Ég tek undir margt af því sem hv. þm. sagði en það er eitt atriði sem ég verð að nefna vegna ræðu hans og reyndar ræðu hv. 6. þm. Norðurl. e. sem leiðir okkur á dálitlar villigötur. Það er þegar talað er um skatta sem hlutfall af útlánum. Þegar það er gert verða menn að hafa í huga að það skiptir öllu máli hver eiginfjárstaðan er og hvort verið er að lána út eigið fé eða ekki. Tökum dæmi: Íslandsbanki er að lána fé sem bankinn fær sem innlán. Þess vegna er veltan mikil, skattar lágt hlutfall af heildarveltunni og heildarútlánunum. Tökum hins vegar Iðnlánasjóð sem á verulegar eignir, lánar fyrst og fremst eigið fé til ýmissa aðila. Þá verða skattarnir auðvitað hærra hlutfall af veltunni, af útlánunum. Svo einfalt er þetta mál. Til viðbótar þessu er auðvitað munur á því hvort ríkið á viðkomandi lánastofnun eða hvort lánastofnunin er hlutafélag vegna þess að hlutafé dregst frá heildareigninni og þannig greiðir sjóðurinn minni skatta. Þeir sem eiga hlutaféð og fá arðinn greiða hins vegar skatta af því hlutafé hjá sér eftir almennum reglum, sumir mikið, aðrir minna, allt eftir því hver frádrátturinn er.
    Þetta taldi ég, virðulegi forseti, nauðsynlegt að kæmi hér fram sem andsvar við því sem haldið hefur verið fram af hv. 2. þm. Suðurl. og reyndar einnig hv. 6. þm. Norðurl. e.