Skattskylda innlánsstofnana

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 15:54:35 (6812)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tel að rök þau sem ég setti fram áðan hafi alls ekki verið hrakin af hv. þm. og ég bið hann vinsamlegast um að skoða sinn heimalærdóm því að það liggur fyrst og fremst og nær eingöngu í þessu þegar verið er að reikna þetta hlutfall. Ég vona að við getum a.m.k. orðið ásáttir um það hvernig hlutföll breytast þegar annars vegar er um að ræða það að sjóður láni út sitt eigið fé og svo hins vegar þegar sjóður eða banki lánar út fjármuni sem sjóðurinn eða bankinn alls ekki á heldur hefur tekið að láni frá öðru fólki. Þá sjá allir í hendi sér að hlutföllin hljóta að breytast þegar um skattlagningu er að ræða því að skatturinn er einungis greiddur af tekjum, þ.e. hreinum tekjum eða af hreinni eign.