Skattskylda innlánsstofnana

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 15:58:00 (6815)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Halldór Ásgrímsson) :
    Herra forseti. Það er nú nokkuð erfitt að átta sig á því hér síðustu daga þingsins hvað það er sem hæstv. ríkisstjórn leggur áherslu á, hvaða mál það eru sem hún telur þýðingarmest að koma fram og hvernig á að standa að þinghaldinu. Ekki er mér kunnugt um það. En það er óvenjulegt að þegar svo stuttur tími er eftir af þinghaldinu að ekki skuli liggja nein vissa fyrir um fyrirkomulag og mér vitanlega er nánast ekkert verið að tala um það þannig að hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að halda áfram með mál og þó aðallega mál sem eru til þess fallin að gera stöðu atvinnuveganna erfiðari þótt ég vænti þess að það geti náðst um það samstaða að afgreiða mál sem snerta Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. ( Gripið fram í: Sjávarútvegsins.) Sjávarútvegsins, áður Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins.
    Hæstv. forsrh. kom í sjónvarp í gær og sagðist vera farinn að hafa áhyggjur af atvinnuleysi. Það var kominn tími til því að atvinnuleysi er nú um 3% og fer vaxandi. Hann sagði að ein aðalástæðan fyrir því að það ætti að breyta lögum um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins og greiða þar út fé væri sú að atvinnuleysið væri vaxandi og það væri mikilvægt að snúa þeirri stöðu við. Þetta er mikilvæg stefnubreyting hjá hæstv. ríkisstjórn því að hingað til hefur hæstv. ríkisstjórn haldið því fram að þessi mál yrðu að hafa sinn gang og menn yrðu að lúta almennum reglum atvinnulífsins og ef eitt fyrirtæki færi á hausinn mundu önnur taka við. Þar af leiðandi höfum við stjórnarandstæðingar kallað þessa stefnu gjaldþrotastefnu. Það má því segja að þetta mál, sem hér er til umræðu, snertir þennan málatilbúnað ríkisstjórnarinnar allmikið. Hér er verið að leggja til að skattleggja fjárfestingarlánasjóði landsins og auðvitað mun sú skattlagning --- hæstv. forseti, ég get gert hlé á máli mínu meðan þingmaðurinn og fjmrh. ræðast við. Mér skilst að það sé nægur tími hér hvort eð er þannig að það er vel hægt að gera hlé á máli sínu. --- Auðvitað mun þetta hafa áhrif á stöðu þessara sjóða. Það mun hafa áhrif á ráðstöfunarfé þeirra. Það mun hafa áhrif á getu þeirra til að standa við bakið á viðkomandi atvinnuvegum. Það má vel vera að Fiskveiðasjóður þurfi ekkert að hækka sína vexti eins og mér heyrðist á fjmrh. áðan. Það liggur hins vegar alveg ljóst fyrir að ef hann gerir það ekki, að þessum lögum samþykktum, verður sjóðurinn rekinn með miklu tapi. Er það traustvekjandi gagnvart erlendum lánardrottnum? Er það réttlætanlegt út frá þeirri áhættu sem sjóðurinn er í? Því að þótt þessi fjárfestingarlánasjóður eigi allmikið eigið fé þá er það ekki mikið miðað við þá gífurlegu áhættu sem hann er í með sín útlán. Hann hefur oft og tíðum orðið fyrir áföllum. Sem betur fer hefur tekist að afstýra ýmsu og færa mál til betri vegar á undanförnum árum og það er ekki síst því að þakka að hér hefur verið komið á fiskveiðistjórnun sem byggir á því að þeir aðilar, sem hafa afnot af auðlindinni, geti treyst á það til frambúðar að þeir hafi aðganginn. Nú eru uppi hugmyndir um breytingar þar á, ekki síst að kröfu Alþfl. um að annaðhvort greiði viðkomandi atvinnugrein sérstakt gjald fyrir afnotin og þess vegna ríkir veruleg óvissa um framtíð þessa sjóðs. Það er alveg ljóst að ef gerðar verða verulegar breytingar á fiskveiðistjórnuninni mun það hafa mikil áhrif á stöðu fjárfestingarlánasjóðs eins og Fiskveiðasjóðs.
    Sannleikurinn er sá að núv. ríkisstjórn er ekkert að gera til þess að reyna að auka

atvinnu á Íslandi. Ég veit ekki til þess að það sé neitt það í gangi sem er til örvunar á þeim sviðum. Það er verið að draga úr möguleikum fjárfestingarlánasjóðanna með þessu frv., hvort sem það er Stofnlánadeild landbúnaðarins, Fiskveiðasjóður eða Iðnlánasjóður. Það verður líka að hafa í huga að þessir sjóðir hafa þær skyldur að standa fyrir nýbreytni í atvinnulífi. Það hefur Iðnlánasjóður gert og Fiskveiðasjóður hefur nýlega hafið slíka starfsemi. Er líklegt að það verði áframhald á því starfi að þessum lögum samþykktum? Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir að svo verður ekki. Er líklegt að Fiskveiðasjóður geti staðið við þær skuldbreytingar sem hann hefur lofað að þessum lögum samþykktum? Hefur ríkisstjórnin rætt það við sjóðstjórnina eða forstöðumenn sjóðsins? Það er ekki að sjá á þeim bréfum sem Fiskveiðasjóður hefur nú skrifað að það hafi verið nokkuð talað við þá um þessa stöðu mála. Er líklegt að lánssamningum, sem Fiskveiðasjóður hefur gert erlendis, verði sagt upp? Það liggur fyrir í bréfum frá Fiskveiðasjóði að það sé mjög líklegt að svo geti farið. Hefur ríkisstjórnin einhverjar áhyggjur af því?
    Það kemur líka fram í þessum sömu bréfum Fiskveiðasjóðs, með leyfi forseta, að það sé líklegt að Fiskveiðasjóður verði þá að leita eftir öðrum lánum erlendis á óhagkvæmari kjörum. Það er ekki nóg með það að þetta muni verða til þess að hækka vexti Fiskveiðasjóðs á sjávarútveginum heldur kemur jafnframt fram að það geti orðið til þess að við Íslendingar þurfum að taka allmikið fé að láni erlendis með hærri vöxtum en við njótum núna. Það þarf kannski ekki að hafa neinar áhyggjur af þessum aðvörunum og menn geta bara haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist.
    Það kemur líka fram í bréfum Fiskveiðasjóðs að skyndibreytingum sé hvarvetna tekið með tortryggni og það er kannski aðalatriði þessa máls að það má ekki fara út í skyndibreytingar. Það er rétt eins og fram hefur komið hjá hæstv. fjmrh. og hann er afar þakklátur fyrir að undirbúningur þessa máls hófst fyrir allmörgum árum og hann hefur sérstaklega fært fram þakkir til fyrrv. fjmrh. vegna þess. Ég vil ekki færa fyrrv. fjmrh. nokkrar þakkir fyrir þann undirbúning því að sá undirbúningur var mjög slæmur og með ólíkindum slæmur. Mér þykir verst að fyrrv. fjmrh. heyrir ekki þessi orð mín. (Gripið fram í.) Ég held að undirbúningurinn hefði í sjálfu sér ekki verið neitt betri þótt þingflokksformaður Alþfl. hefði verið áfram í Alþb. En hann hvarf þaðan á braut einmitt um það leyti sem þessi undirbúningur stóð sem hæst og var þá sérstakur trúnaðarmaður Alþb. í stjórn Framkvæmdasjóðs Íslands ( ÖS: Og stóð sig vel.) og stóð sig vel. En þáv. fjmrh. gerði líka tillögu um það að skattleggja Framkvæmdasjóð Íslands samkvæmt lagafrv. þar um og ég vænti þess að hann hafi borið það undir formanninn, enda ríkti þá mikil bjartsýni um stöðu sjóðsins. Það var áður en miklar greinargerðir voru um hann skrifaðar af hálfu Ríkisendurskoðunar þannig að ég er ekki þakklátur fyrrv. fjmrh. fyrir þennan undirbúning þótt núv. fjmrh. sé það en varð hins vegar mjög glaður við hvað þingið tók þessu frv. með mikilli gagnrýni á sínum tíma og sýndi mikilvægi þess að þingræði starfi á sem blómlegastan hátt og hér séu málefnalegar umræður og langar ef á þarf að halda.
    Hæstv. núv. fjmrh. tók þessa umræðu ekki alvarlega. Var hann þó þátttakandi í þeim og gagnrýndi mjög harkalega þetta frv., ef ég man rétt. Það má vel vera að það sé einum of mikið að segja að það hafi verið harkalega. En a.m.k. man ég eftir að hafa lesið ræður þingflokksformanns Sjálfstfl. í þessu máli. En hvað um það. Málið var flutt nánast óbreytt á sl. hausti sem sýndi vel hvað núv. ríkisstjórn var lengi að átta sig á stöðu mála. Hún flutti allmörg frv. rétt fyrir jól og mjög mikið af þeim frv. sem hæstv. fjmrh. flutti voru tekin í skyndingu upp úr einhverri skúffu niður í fjmrn. þar sem hefur væntanlega staðið á: Fyrirliggjandi tilbúin frumvörp. Sum af þeim voru gömul og flest af þeim voru undirbúin af hæstv. fyrrv. fjmrh. Ólafi Ragnari Grímssyni. ( ÓRG: Það stóð ónothæf frumvörp, hv. þm.) Nú, það stóð ónothæf frumvörp og það voru þá sem sagt þau frumvörp sem fyrrv. fjmrh. hafði verið rekinn til baka með af þinginu og núv. fjmrh. tók fegins hendi.
    Auðvitað skiptir það mestu máli í sambandi við þetta mál hver á að vera staða fjárfestingarlánasjóðanna og hver eiga að vera starfsskilyrði þeirra. Það er sagt í þessu frv. að það sé verið að jafna stöðuna á fjármagnsmarkaðnum. Flutt var tillaga í vetur og hún samþykkt, um að ríkisábyrgð á Fiskveiðasjóði yrði afnumin. Því var haldið fram að þetta yrði gert í góðu samstarfi við Fiskveiðasjóð. Síðan kom í ljós að það var ekki gert í neinu samstarfi við Fiskveiðasjóð og hér var um ákveðið slys að ræða. Í nál. meiri hluta efh.- og viðskn. við afgreiðslu þess máls var haldið fram að stigið væri fyrsta skrefið til að gera fjárfestingarlánasjóðina að hlutafélögum þannig að það fer eftir því í hvaða mánuði er talað hvað sagt er um þessi mál. Einn daginn á að breyta þeim í hlutafélög. Einn daginn á að afnema ríkisábyrgð og annan daginn á að gera þá skattskylda. Þetta vekur ekki tiltrú á viðkomandi sjóðum. Að sjálfsögðu vekur það ekki tiltrú á núv. ríkisstjórn en það kemur í sjálfu sér engum á óvart og skiptir e.t.v. ekki mestu máli. En það skiptir miklu máli að viðkomandi fjárfestingarlánasjóðir hafi tiltrú úti á markaðnum og ekki síst á erlendum vettvangi þegar þeir eru að semja við lánastofnanir. En hvað um það. Nú liggur fyrir tillaga um að skattleggja nokkra fjárfestingarlánasjóði en hins vegar hefur verið hætt við að skattleggja aðra. Sumar af þeim breytingum sem þar er búið að fallast á eru góðar og gildar. Þar var um að ræða sjóði sem eru fyrst og fremst styrktarsjóðir eins og Framleiðnisjóður landbúnaðarins o.fl. og var náttúrlega út í hött að láta sér detta það í hug að slíkir sjóðir gætu verið skattstofn sem byggja fyrst og fremst á framlögum úr ríkissjóði. Það hefur jafnframt verið fallið frá því að skattleggja sjóði eins og húsnæðislánasjóðina. Byggðastofnun á ekki að skattleggja og nú síðast hefur verið fallist á að skattleggja ekki Lánasjóð ísl. sveitarfélaga.
    Það eru vissulega mikil rök fyrir því að skattleggja ekki Lánasjóð ísl. sveitarfélaga. Eigendur hans eru óskattskyldir aðilar, sveitarfélögin í landinu, sem leggja jafnframt skatta á landsmenn og fyrirtæki og því get ég fallist á þau rök að ekki eigi að skattleggja slíkan sjóð. En ég hlýt að spyrja: Eru þau skilyrði í dag að það sé rétt að rjúka til og skattleggja sérstaklega þá sjóði sem eiga að standa fyrir uppbyggingu og framförum í atvinnulífinu? Bera atvinnuleysistölur síðustu mánaða og spár fram í tímann þess vitni að nú sé rétt að stíga þetta skref? Ég held að allir geti verið sammála um að svo er alls ekki. Er rétt að draga þróttinn úr þessum aðilum? Mun það skapa ríkissjóði betri afkomu? Er hæstv. fjmrh. orðinn þannig í bókhaldi sínu hjá ríkissjóði að hann telji að það eina sem skipti máli sé að draga inn sem mesta skatta? Er hæstv. fjmrh. búinn að gleyma þeim fræðum sem hann kunni einu sinni afar vel að það sem skiptir mestu máli fyrir ríkissjóð er hversu vel atvinnulífið gengur og hversu blómlegt það er og að landsmenn hafi sem mest að starfa. Telur hæstv. fjmrh. að þetta frv. muni gera það betra fyrir atvinnulífið að byggja upp og skapa fleirum atvinnu? Ég veit að hæstv. fjmrh. gerir sér fulla grein fyrir því að þetta mun verða til þess að auka atvinnuleysi og ég vænti þess að hæstv. fjmrh. viti að aukið atvinnuleysi mun minnka skatttekjur ríkisins og auka útgreiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem getur ekki staðið við skuldbindingar sínar. Þannig er það alveg ljóst í mínum huga að sá sem fer verst út úr þessum æfingum er ríkissjóður sjálfur. ( EKJ: Já, er það ekki?) Og ég heyri að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson er sammála því og man þá vel eftir þeirri hagfræði sem Ronald nokkur Reagan innleiddi sem ég er að vísu ekki alveg sammála. En það eru þó til punktar í henni sem eru réttir og menn verða að hafa í huga. En ég heyri að núv. ríkisstjórn og stuðningsmenn hennar eru búnir að gleyma því öllu saman. ( Gripið fram í: Ekki Eykon.) Nei, ég er alveg viss um að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson er ekki búinn að gleyma þessu, en það er ekki nóg að hann gleymi því ekki. Hann verður þá að halda núv. ríkisstjórn við efnið. Það þýðir ekkert að láta þessa menn í friði í sambandi við svona mál. Þeir eru greinilega orðnir værukærir og sú hagfræði sem þeir eru farnir að framfylgja núna og hafa framfylgt á undanförnum mánuðum er farin að skapa mikið atvinnuleysi á Íslandi og það er aðalatriðið. Og við verðum að bregðast við og berjast gegn atvinnuleysinu og nota til þess öll ráð. Ég veit ekki til þess að núv. ríkisstjórn sé að gera nokkurn skapaðan hlut í þeim efnum. Ríkisstjórnin telur sig ekki hafa skyldur til að leita að nýjum atvinnutækifærum með svipuðum hætti og flestar aðrar ríkisstjórnir í Evrópu. Það er t.d. ljóst að Danir hófu mjög mikið starf við að leita að aðilum erlendis til að fjárfesta í Danmörku. Öll utanríkisþjónusta Danmerkur var sett í það mál og sú áætlun stóð yfir í þrjú ár. Nú er verið að leggja mat á hvernig þarna hefur gengið. Dönum þykir niðurstaðan vera heldur rýr því að hún hefur leitt til þess að tólf fyrirtæki munu koma til samstarfs frá Bandaríkjunum og tólf frá Japan. Þetta mun hins vegar skapa mikla atvinnu í Danmörku.
    Mér er það ljóst að núv. ríkisstjórn hefur lagt á það mikla áherslu að ná samningum um Atlantsálsmálið og er það vel. En það er bara ekki nóg. Það þarf að leita annarra leiða og gera atvinnuvegunum kleift að líta fram á veg og byggja upp. En íslenskur sjávarútvegur á greinilega ekki að fá slíka möguleika. Það er ekki nóg að skamma íslenskan sjávarútveg reglulega í leiðurum Morgunblaðsins. Jafnvel þótt Sjálfstfl. hyggist ekki ráða neinu á Morgunblaðinu, það þarf nú enginn að segja mér það, en það virðist vera aðalhugmyndafræðin til að fá fram meiri framleiðslu og meiri verðmætasköpun í íslenskum sjávarútvegi að skamma hann reglulega, helst einu sinni í viku ef ekki oftar, í leiðurum Morgunblaðsins og yfirleitt í öllum helgargreinum. Það þarf nefnilega fjármagn til að hægt sé að fara út í nýja hluti og Fiskveiðasjóður er ein af þeim stofnunum sem þar getur hjálpað til. Jafnframt var það upplýst fyrir áramót að fyrir utan þessa skattlagningu, sem hér á að eiga sér stað, að það hefði verið farið út í að skattleggja íslenskan sjávarútveg um 792 millj. sem var hækkun úr 141 millj. eða um 650 millj. þannig að nú fer þessi skattlagning á árinu 1992 að verða svona alveg um 1 milljarður. Það er mikið samræmi í þessu að skattleggja einn daginn um 1 milljarð og greiða svo út úr sjóðum sem eru ætlaðir til verðjöfnunar hinn daginn um 2,5 eða 3. Hvaða forsendur hafa menn til þess að fara út í þessa skattlagningu þegar jafnframt er viðurkennt að það verði að greiða þetta út? ( Forseti: Forseti vill trufla hv. þm. í ræðu sinni og spyrja hvort hann eigi eftir langt mál enn.) Já, hæstv. forseti. Ég flutti ræðu um þetta mál við 1. umr. í fimm hlutum og ég á eftir mikið af minni ræðu um þetta mál, en ég skal gjarnan gera hlé á henni nú ef þess er óskað af forseta. ( Forseti: Já, eins og forseti gat um hér fyrr, þá verða utandagskrárumræður kl. hálffimm að ósk hv. 2. þm. Suðurl. og ef þingmaðurinn getur fallist á það, þá mundi hann gera hlá á ræðu sinni núna.)