Áhrif samnings um Evrópska efnahagssvæðið á innflutning búvara

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 16:34:00 (6817)



     Jón Helgason :
    Herra forseti. Ég vil ítreka spurningu til hæstv. landbrh. um áhrif EES-samninganna á innflutning búvara, spurningu sem borin hefur verið fram áður en lítil og loðin svör fengist við og þá sérstaklega við setningu í 5. gr. 1. viðbæti við bókun 3 í EES-samningnum sem er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Gjöld sem lögð eru á við innflutning til landsins skulu þó aldrei vera hærri en það sem Ísland leggur á innflutning frá samningsaðilum árið 1991.``
    Í umræðum utan dagskrár um EES 28. apríl sl. var hæstv. utanrrh. spurður um áhrif samninganna á innflutning búvara og svaraði hann því að þar væri sameiginlegur listi fyrir EFTA-löndin fyrir unnar afurðir og sérstaklega þó tekið fram að hvað Ísland varðar væru veigamiklar undantekningar og því væri auðvitað ástæðulaust að segja áhrif á íslenskan landbúnað í þessum samningi séu áhyggjuefni.
    Í óundirbúnum fyrirspurnatíma 5. þessa mánaðar spurði hv. 1. þm. Norðurl. v.

hæstv. landbrh. um fyrrnefnda setningu. Því svaraði hæstv. ráðherra m.a. á þá leið að hann hefði skrifað hæstv. utanrrh. á sl. sumri um stefnu ríkisstjórnarinnar í landbúnaðarmálum og taldi að þeim hefði tekist að ná fram þeim atriðum sem þýðingarmest væru í sambandi við stöðu íslensks landbúnaðar í EES. Jafnframt sagði hæstv. landbrh. ítrekað að um öll þessi mál hefði verið haft náið samráð við bændasamtökin. Vegna þeirra ummæla vil ég undirstrika að bændasamtökin hafa alltaf lagt mikla áherslu á ótvíræða heimild til að leggja á jöfnunargjöld til að vega á móti lægra hráefnisverði og hafa því aldrei samþykkt að slíkri heimild sé afsalað. Það var tekið fram við núv. ríkisstjórn, fyrst í bréfi frá Stéttarsambandi bænda þegar 16. maí 1991 og síðan í mörgum bréfum og samtölum. Og iðnrn. tók oft undir þetta síðast í bréfi frá því ráðuneyti dags. 24. apríl sl. þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Farið hefur verið efnislega yfir þýðinguna á EES-samningnum. Ráðuneytið hefur ekki athugasemdir við þýðinguna nema hvað varðar 2. mgr. 2. tölul. 5. gr. 1. viðbætis. Rétt þykir að umrædd málsgrein sé í anda þess samkomulags sem náðist varðandi þetta atriði og þar með í samræmi við næstu málsgrein á undan. Svo er ekki eins og samningurinn er nú, eins og áður hefur verið bent á. Þetta á bæði við um enska og íslenska textann.``
    Ég vil beina eftirfarandi spurningum til hæstv. landbrh.:
    1. Beitti hæstv. landbrh. sér fyrir því að koma inn í EES-samninginn setningunni: ,,Gjöld sem lögð eru á við innflutning til landsins skulu þó aldrei vera hærri en það sem Ísland leggur á innflutning frá samningsaðilum árið 1991``?
    2. Er íslenska ríkisstjórnin með þessari setningu að afsala Íslendingum rétti til að leggja á jöfnunargjöld þar sem árið 1991 voru slík gjöld hér mjög lág eða engin?
    3. Hvernig var þessi setning skýrð af báðum samningsaðilum þegar frá henni var gengið?
    4. Hvaða afleiðingar telur hæstv. landbrh. að þetta ákvæði hafi fyrir íslenskan landbúnað og er hann sammála hæstv. utanrrh. að það sé auðvitað ástæðulaust að segja að áhrif á íslenskan landbúnað í þessum samningi sé áhyggjuefni?