Áhrif samnings um Evrópska efnahagssvæðið á innflutning búvara

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 16:44:00 (6820)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vildi fyrst og fremst staðfesta að það er mat utanrrn. og starfsmanna þess sem í samningunum hafa staðið að það ákvæði sem hér var nefnt til sögunnar af hv. 2. þm. Suðurl. snerti ekki þær afurðir sem nú njóta fullkominnar innflutningsverndar. Eins og kom fram í máli hæstv. landbrh. áðan þá er það túlkun ríkisstjórnarinnar og embættismanna hennar að þessi 5. gr. valdi því ekki að undanþága frá gjaldþakinu sé þarna. Það er ekki gjaldþak á þeim vörum sem notið hafa innflutningsverndar að okkar skilningi og eins og kom fram hjá hæstv. landbrh. þá er það skilningur þeirra manna sem að samningunum hafa unnið. Það má vera eins og kom fram með tilvitnun hv. 2. þm. Suðurl. í bréf sem iðnrn. skrifaði vegna þýðingarinnar að orðalagið hefði mátt vera þéttara. En úr því verður bætt á vettvangi samningsaðila eins og ákvæði segja til um í samningnum.