Áhrif samnings um Evrópska efnahagssvæðið á innflutning búvara

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 16:51:45 (6823)

     Pálmi Jónsson :
    Herra forseti. Tveir hæstv. ráðherrar hafa lýst yfir, sem skilningi sínum og ríkisstjórnarinnar og enn fremur þeirra embættismanna sem starfa á hennar vegum, að sú bókun sem hér er spurt um hindri Íslendinga ekki í að leggja á jöfnunargjald til þess að verja sína hagsmuni. Ég tel auðvitað eðlilegt að þetta sé kannað nánar í þeirri vinnu sem fram undan er en þessi skilningur ríkisstjórnarinnar verður auðvitað að vera það sem gildir í

þessum samningum sem um er að ræða.
    Ég vona að ég fari ekki út fyrir fundarefnið þó að ég veki athygli á einkennilegri frétt sem kom í Ríkisútvarpinu í gærkvöldi frá aðalfundi Sláturfélags Suðurlands. Þar segir að ítarlega hafi verið rætt um að félagið vanti kindakjöt til sölu. Talsverð rimma hafi verið um þessi mál síðsumars í fyrra þegar forstjóri Sláturfélagsins lýsti því yfir að Sláturfélag Suðurlands fengi ekki allt það kindakjöt sem fyrirtækið þyrfti á að halda og aðrir aðilar hefðu þar sérstöðu. Þess vegna þyrfti að auka framleiðslu á öðrum kjöttegundum til að fullnægja kjötþörf þessa fyrirtækis. Ég hlýt að spyrja hæstv. landbrh. að því í tilefni þessarar fréttar hvort ráðuneytið muni ekki bregðast við þessari stöðu og hvort það sé svo að stórir viðskiptaaðilar á innlendum markaði með kjöt og kjötvörur fái ekki kindakjöt til sölu eins og þeir þurfa. Það er sannarlega ekki undarlegt að samdráttur hafi orðið í sölu á þessari framleiðslu á síðustu árum. Afleiðingin er sú að við gríðarlegan vanda er að etja í sveitum landsins og raunar, ef svo heldur fram, mun það kippa stoðunum undan afkomu og byggð á stórum svæðum á landinu. Ég vænti þess að ég fari ekki út fyrir dagskrárefnið þótt ég spyrji um viðbrögð við þessari frétt.