Áhrif samnings um Evrópska efnahagssvæðið á innflutning búvara

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 17:20:00 (6837)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Eðli þeirra þingskapa að leyfa hálftímaumræður utan dagskrár með mjög takmörkuðum umræðutíma, eina til tvær mínútur á hvern þingmann, er að fá fram skýr svör ráðherra við stuttum spurningum þingmanna. Ég bar fram, eins og ég hef sagt, bæði áðan og í umræðutímanum einfalda spurningu til hæstv. landbrh. sem hægt var að svara með einni setningu. Hann fékk annað tækifæri til að svara þessari spurningu, hann gerði það ekki. Ég vil mótmæla því að ráðherrar séu að misnota reglur þingsins til að ráðast að þingmönnum í stað þess að svara þeim spurningum sem ætlast er til að þeir svari sem ráðherrar í ríkisstjórn Íslands. Það fylgir því ábyrgð, hæstv. ráðherra Halldór Blöndal, að vera ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Það er að veita þingi og þjóð skýr svör við einföldum spurningum. Það er auðvitað mjög athyglisvert að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur hæstv. landbrh. ekki fengist til að svara því í ræðustóli Alþingis hver mun úrskurða um þessi jöfnunargjöld eftir að EES-samningurinn hefur tekið gildi. Hæstv. landbrh. treystir sér ekki til að svara því. Kannski er það vegna þess að hann hefur ekki enn þá lesið EES-samninginn og kannast ekki við lagakafla og úrskurðarkafla samningsins. Ég ætla ekki að væna hann um það. En það er auðvitað mjög merkilegt að ráðherrann skuli ekki leggja í að svara þessari spurningu. ( Forseti: Forseti vill minna hv. þm. á að hann er að ræða um gæslu þingskapa.) Ég ætlaði, virðulegi forseti, að biðja forseta þess vegna á þeim skamma tíma sem eftir er af þessu þingi að áminna ráðherrana um það utan þingsalar til að greiða fyrir umræðum að þeir svari þeim einföldu spurningum sem til þeirra er beint á málefnalegum grundvelli því að við höfum engan áhuga á að standa í skaki af því tagi sem við þurfum að gera hér, en við látum heldur ekki bjóða okkur það að ráðherrarnir svari ekki einföldum og skýrum spurningum. Ég vil þess vegna beina því til forsetans, til að greiða fyrir þingstörfum næstu sólarhringa, að ráðherrarnir hagi sér með eðlilegum hætti.
    Að lokum vil ég svo ítreka það að enginn ráðherra, hvorki landbrh. né viðskrh., hefur treyst sér til þess að fullyrða að athugasemdir Íslands við þessa samningsgrein hafi verið fluttar með skriflegum hætti. Ég vek athygli manna á því. Þessir ráðherrar voru spurðir að því: Hefur verið bréfað um þennan skilning íslensku ríkisstjórnarinnar? Hefur verið bókað um þennan skilning íslensku ríkisstjórnarinnar? Þeir hafa ekki treyst sér til að svara því. Það eina sem þeir hafa sagt er að Gunnar Snorri Gunnarsson, embættismaður í utanrrn., hafi fjallað um málið. Þótt þeir séu spurðir um bókun eða bréf skjóta þeir sér undan að svara. Ályktunin, sem hægt er að draga af þessu, er einfaldlega sú að íslenska ríkisstjórnin hefur hvergi á blaði lagt fram þennan skilning á þessari sérstöku grein gagnvart Evrópubandalaginu. Þá er auðvitað alveg ljóst að vígstaða Íslands til að andmæla skilningi Evrópubandaslagsins á greininni, þegar stofnanir EES-svæðisins fara að fjalla um málið, verður nánast engin.