Tilhögun þinghalds

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 17:44:00 (6847)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Hér hefur orðið nokkur umræða um störf í nefndum þingsins og hvernig menn standa að þeim svo og upplýsingastreymi úr nefndum inn í þingflokka. Það er auðvitað ljóst að mál eru með misjöfnum hætti. Það fer eftir því um hvaða mál er að ræða hversu mikla vinnu þarf að leggja í þau. Þannig hefur háttað til í báðum þeim nefndum sem ég á sæti í, félmn. og allshn., að þar hafa verið mjög viðamiklir lagabálkar á ferðinni sem hefur þurft að leggja í mikla vinnu. Þannig var t.d. lögð gríðarleg vinna í frv. til laga um Brunamálastofnun enda báru brtt. þess merki að menn hefðu unnið mjög ítarlega að því og náðu saman um þær tillögur. Það segir okkur að það hefði kannski mátt skoða og vinna málið betur uppi í ráðuneyti áður en það var lagt fram.
    Við höfum líka verið að ræða mál eins og um vernd barna og ungmenna sem hafði verið mikið rætt á þinginu næst á undan þessu. Lá málið fyrir í þskj. með brtt. svo að við gengum að málinu nokkuð vel unnu, a.m.k. þeir sem áður hafa setið á þingi. Við hinir sem erum nýliðar urðum að leggja heldur meira á okkur en brtt. voru þá þegar allnokkrar fram komnar.
    Varðandi málefni fatlaðra hefur dálítið öðruvísi verið að því staðið en öðrum málum í þinginu, a.m.k. en þeim málum sem ég hef komið nálægt. Það er eina málið sem ekki hefur verið gefinn neinn verulegur tími til umfjöllunar í nefnd. Umsagnir voru að berast fram til 6. maí og málið var tekið út úr nefnd þann 11. maí. Það frv. hefur ekki verið lagt

fram áður þannig að menn hafa ekki að neinni vinnu að ganga sem áður hefur verið unnin, enda ber það þess líka merki að það er komin fram 81 brtt. að menn hafa eitthvað við málið að athuga og það sem er merkilegt við það er að frá meiri hlutanum eða þeim sem að honum standa, ýmist saman eða hverjum í sínu lagi eru samtals um 45 brtt. Meiri hlutinn er með 45 brtt. Það segir okkur að eitthvað þarf að skoða málið.
    Ég er líka með þó nokkuð margar brtt. þó að ég nái því ekki að vera jafnoki meiri hlutans. Ég vil kynna þetta mál fyrir þingflokknum, bæði mínar tillögur og tillögur meiri hlutans sem mér finnst sumar hverjar ágætar. Til þess þarf tíma og þess vegna báðum við um þann tíma og ég vænti þess að hæstv. forseti verði við því og hagi þingstörfum þannig að sá tími gefist. En ein ástæðan fyrir því að við erum í slíkri kastþröng í þessu máli eru erfiðleikar innan ríkisstjórnarinnar og ég held að hæstv. umhvrh. ætti að hlusta eftir því. Málið var lagt fram í bullandi ágreiningi milli flokkanna rétt fyrir jól. Því var ekki vísað til nefndar fyrr en 25. febr. Það er ágreiningur innan stjórnarflokkanna sem hefur gert málinu erfitt fyrir og gert það að verkum að við höfum haft ákaflega knappan tíma til að vinna í því og í raun og veru allt of knappan tíma og ég gerði grein fyrir því í framsöguræðu minni fyrir minnihlutaáliti félmn. hver afstaða mín væri til þessara vinnubragða.