Tilhögun þinghalds

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 17:52:24 (6849)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég bar áðan upp einfalda ósk um það að forsetar sköpuðu tíma eftir helgina fyrir fund í þingflokkum svo hægt væri bera saman bækur um afstöðu til fjölmargra brtt. sem fram hafa komið. Þetta var ósöp eðlileg og einföld ósk. Þá gerist það að hæstv. umhvrh. sér sérstaka ástæðu til að koma með árásir á okkur í stjórnarandstöðunni og flytur alls konar kenningar í stíl hæstv. forsrh. um það hver sé ástæðan fyrir því að mál tefjist í þinginu.
    Ég vil í fyrsta lagi segja að ég er ekki viss um að mál tefjist mikið hérna í þinginu. En það er eitt sem að mínum dómi hefur fyrst og fremst gert erfitt fyrir síðustu dagana varðandi afgreiðslu mála og það eru fjarvistir ráðherranna sjálfra. Ég man ekki eftir því að þingi hafi verið lokið á undanförnum árum þar sem jafnmikið var um fjarvistir ráðherra að ræða. Það hefur t.d. vakið athygli að forsrh. og utanrrh., formenn stjórnarflokkanna, eru mjög lítið viðlátnir þessa síðustu daga. Tökum bara daginn í dag t.d. Það varð að fresta afgreiðslu á frv. um Atvinnuleysistryggingasjóð fyrr í dag vegna þess að forsrh. var ekki mættur. Og þegar við höfum viljað átta okkur á því hvaða afstöðu formenn stjórnarflokkanna hefðu til afgreiðslu mála í þinginu og kannski viljað ræða við þá í hliðarsölum þá hafa þeir einfaldlega ekki verið mættir. Það er auðvitað ósköp eðlilegt að störfin gangi erfiðlega og illa þegar sjálfir forustumenn stjórnarflokkanna, hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., eru meira og minna fjarverandi á þessum síðustu dögum. Ég veit engin dæmi til þess --- þvert á móti hefur það verið talin einhver mikilvægasta skylda ráðherranna á síðustu dögum þingins að vera þar til staðar til þess að greiða fyrir afgreiðslu mála.
    Hæstv. heilbrrh. er búinn að vera fjarverandi núna lengi. Við höfum í sjálfu sér ekki verið að gera athugasemdir við það þó að við í Alþb. verðum kannski að sætta okkur við að skýrsla um málefni aldraðra, sem var borin fram ósk um í byrjun október til hans, verði tekin fyrir í þinginu fyrir þinglok án þess að hann taki þátt í umræðunum. Þetta eru auðvitað engin vinnubrögð af hálfu ráðherranna.
    Hæstv. viðskrh. er að fara til útlanda núna um helgina þannig að hann getur ekki verið hér tvo síðustu þingdagana. Og til þess að taka tillit til þess samþykktum við að hann fengi að mæla fyrir svari sínu varðandi skýrslu um iðnaðarmál og sættum okkur við það þó að sá maður, sem ætti að vera okkar talsmaður í þeim viðræðum, væri veikur í dag og gæti ekki komið til þings fyrr en eftir helgi. Þannig að ef það er eitthvað að mínum dómi sem fyrst og fremst hefur tafið fyrir síðustu sólarhringana þá eru það tíðar og sífelldar og samfelldar fjarvistir ráðherranna. Mér finnst það ekki vera góð verkstjórn hjá hæstv. forsrh. að segja ekki einfaldlega við sitt ráðherralið: Á lokadögum þingsins er öll ráðherrasveitin á staðnum. Hvaða fundir og ferðalög eru svona mikilvæg að menn þurfa annaðhvort að vera úti í bæ og geta ekki verið hér í þinghúsinu eða þurfa að vera í útlöndum? Hvað er mikilvægara á verksviði ráðherra heldur en að vera í þjóðþinginu síðustu dagana? Ekki neitt. Það er því rangt hjá hæstv. umhvrh. að einhver þingskapaumræða hafi t.d. í dag tafið fyrir afgreiðslu mála. Ég held að ég fari nokkurn veginn rétt með að það hefur nánast engin þingskapaumræða verið hér í dag fyrr en hv. þm. Halldór Ásgrímsson kemur þegar klukkan var að verða sex á laugardegi og fundur búinn að standa síðan ellefu í morgun og vill fá að vita hvernig menn ætla að halda áfram störfum þingsins af því að enginn talar kerfisbundið við okkur í stjórnarandstöðinni um það og ræðustóllinn á Alþingi er það eina vopn sem við höfum til að átta okkur á því frá degi til dags og koma okkar óskum formlega á framfæri. Þannig að ég vil biðja hæstv. umhvrh., sem hefur setið á þingi síðan 1978 og kynnst ýmiss konar ríkisstjórnum, ýmiss konar stöðu mála í þinginu, að vera ekki að tala um þetta með þessum hætti. Það er bara einfaldlega ekki rétt.
    En ég verð svo að segja --- ég hafði ekki heyrt það fyrr að hæstv. viðskrh. sé að senda efh.- og viðskn. í gær eða í dag brtt. við frv. um greiðslukort upp á 22 síður og ætlar svo að fara úr landi sjálfur núna um helgina. Hvers konar vinnubrögð eru þetta eiginlega?