Gjald vegna ólögmæts sjávarafla

148. fundur
Laugardaginn 16. maí 1992, kl. 18:34:00 (6853)

     Frsm. sjútvn. (Matthías Bjarnason) :
    Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til laga um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla sem er 430. mál. Þar er gert ráð fyrir eins og ég sagði um fyrra málið að Fiskistofa hafi m.a. það hlutverk að stjórna og hafa eftirlit með fiskveiðum og getur hún krafið þann sem gerist brotlegur um gjald er nemi andvirði hins ólögmæta afla.
    Nefndin hefur fjallað um þetta frv. og leggur til að gerðar verði á því eftirfarandi breytingar:
    Í fyrsta lagi er lagt til að sú breyting verði gerð á 5. gr. að vald til þess að krefjast gagna og upplýsinga frá þeim sem greinin kveður á um verði hjá Fiskistofu en verði ekki fengið eftirlitsmönnum hennar beint eins og gert er ráð fyrir í þessari grein frv.
    Í öðru lagi er lagt að 3. mgr. 5. gr. falli brott en ákvæði hennar þykir veita eftirlitsmönnum Fiskistofu of greiðan aðgang að upplýsingum og gögnum hjá opinberum stofnunum, viðskiptabönkum, sparisjóðum og lánastofnunum. Við nefndarmenn í sjútvrn. erum mildari en kerfið þar sem þetta frv. var samið.
    Í þriðja lagi er lagt til að 4. mgr. 10. gr. falli brott, en ákvæðið mælir fyrir um mjög harkalegar aðerðir sem bitna auk útgerðar á sjómönnum og jafnvel á landverkafólki einnig. Það er verið að draga þarna úr en hins vegar er ekki verið að draga það mikið úr að ekki sé hægt að sinna þessu hlutverki sem þetta frv. gerir ráð fyrir.
    Brtt. við þetta frv. eru á þskj. 936 og eru þær þrjár, við 5. gr. eru þær í 9 liðum og síðan er ein við 10. gr. og ein við 12. gr. í þá átt sem ég sagði áðan.
    Sjútvn. mælir með samþykkt þessa frv. með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir og eru á þskj. 936. Undir nál. rita auk mín Össur Skarphéðinsson, Árni R.

Árnason, Guðmundur Hallvarðsson, Árni Johnsen. Með fyrirvara rita undir þetta nál. Steingrímur J. Sigfússon, Jóhann Ársælsson Stefán Guðmundsson og Jón Helgason.