Málefni fatlaðra

149. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 13:03:48 (6855)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Það frv. sem hér verður afgreitt er nýlega lagt fram að nýju eftir meðferð í nefnd og fyrir liggja 80 brtt. Hagsmunaaðilar, sem að þessu máli hafa komið, hafa alls ekki fengið að sjá þær og vafalaust eru allmargir þingmenn sem hafa haft lítinn tíma til að fara yfir þetta frv. Lögin eiga að taka gildi 1. sept. og það er ljóst að ekki er einn eyrir á fjárlögum þessa árs til að mæta þeim kostnaði sem af frv. leiðir.
    Eins og menn sáu í Morgunblaðinu í gær eru málefni Kópavogshælis í algjörlega lausu lofti og um þau mikill ágreiningur en eins og kunnugt er heyra vistmenn þar ekki undir málefni fatlaðra.
    Með tilliti til alls þessa tel ég að æskilegra hefði verið að fresta afgreiðslu þessa máls til haustsins þó að vitanlega sé margt til bóta í þessu frv., en eftir viðræður við ýmsa hv. þm. og ekki síst þingflokk minn hef ég fallist á að greiða þessu frv. atkvæði nú með því eindregna skilyrði að milli 2. og 3. umr. verði kallaðir til hagsmunaaðilar sem ekki hafa litið augum þessar brtt. Í trausti þess að svo verði gert mun ég greiða fyrir þessu máli nú.