Málefni fatlaðra

149. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 14:43:11 (6883)


     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég hafði vaxandi tilfinningu fyrir því, eftir því sem ég skoðaði þetta mál og fjölmargar brtt. með því síðustu sólarhringana, að það þyrfti að yfirfara ýmislegt betur í þessum efnum. Sú afstaða mín hefur mjög harðnað við þessa atkvæðagreiðslu. Ég tel að í henni hafi margar mótsagnir orðið ljósar í frv. og sérstaklega þó hvernig að afgreiðslu þess og gildistöku er staðið. Mér sýnist að það ákvæði til bráðabirgða I sem hér er verið að greiða atkvæði um undirstriki fáránleika þess. Vill forseti gefa aukaforsetanum orðið? ( Forseti: Hv. 4. þm. Norðurl. e. hefur orðið og forseti beinir því til þingheims að gefa honum tækifæri til að gera grein fyrir atkvæði sínu. Ég er sammála forseta. Það fer best á því að ég tali fyrir mig sjálfur. Hv. 8. þm. Reykv. sjái svo um sinn hlut. Mér sýnist að þetta ákvæði til bráðabirgða og hvernig staðið er að því að afgreiða það hér undirstriki í raun fáránleika þess að fella þá brtt. um gildistökuákvæði laganna sem hér var gert áðan. Ég verð að játa, virðulegur forseti, að mér var ekki ljóst þegar greidd voru atkvæði um gildistökuákvæðin á næstu síðu skjalsins fyrir framan að í vændum væri síðan ákvæði til bráðabirgða sem hefði þessi áhrif. Ég ætla þess vegna ekki að taka þátt í þessum leik og mun ekki greiða atkvæði en óska eindregið eftir því að þetta verði eitt af þeim atriðum sem hv. félmn. skoðar vandlega milli umræðna, hvort það fari nú vel saman að haga annars vegar gildistöku laganna með þeim hætti sem þar er gert ráð fyrir og afgreitt var hér áðan og ætla síðan að bjarga sér í land vegna þess að engir peningar eru til til þess að framkvæma neitt nýtt í þessum lögum á þessu ári með bráðabirgðaákvæði af þessu tagi. Ég greiði ekki atkvæði, hæstv. forseti.