Skattskylda innlánsstofnana

149. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 15:37:13 (6897)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Halldór Ásgrímsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. landbrh. að ég ber sjálfsagt ábyrgð á einhverjum breytingum sem hafa orðið á skattalögum. En það er ekki þar með sagt að þær hafi allar verið skynsamlegar. Ég get alveg tekið undir það með honum að það hefur verið gengið of langt í þeim efnum að draga úr afskriftum af útistandandi kröfum. Það á ekki síst við um fjárfestingarlánasjóði sem búa við jafnmikla áhættu og sá sjóður sem hér er gerður að umtalsefni. Þar er áhættan, vegna sérstakra aðstæðna í atvinnugreininni, meiri en almennt gerist. Auðvitað geri ég mér grein fyrir því ef ekki á að líta svo á að tekjur Stofnlánadeildar aðrar en vaxtatekjur komi til skattskyldra tekna en allir vextir komi til gjalda. Jafnvel þótt það sé ljóst að tekjurnar eru innheimtar í stað vaxta þá er þetta ekkert vandamál fyrir Stofnlánadeildina. Þá hljóta menn að spyrja: Hver er þá tilgangurinn með þessu? Það að gera Stofnlánasjóð skattskyldan, sem samkvæmt núgildandi reglum getur aldrei borið tekjuskatt, er skrítið. Ég hlýt þá að spyrja hæstv. landbrh.: Hefur hann leitað álits Stofnlánadeildar á málinu eftir að þessar brtt. komu fram? Telur hann að þetta sé viðsættanleg niðurstaða fyrir Stofnlánadeildina, nægilega skýr niðurstaða svo hún geti búið við málið? Mér fannst það koma fram í máli ráðherrans að hann væri ekki viss um það. En það hlýtur að vera nauðsynlegt fyrir hann að kynna sér það áður en frá málinu er gengið.