Skattskylda innlánsstofnana

149. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 15:42:23 (6899)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Halldór Ásgrímsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Hér ber mikið í milli því annars vegar telur Fiskveiðasjóður að hækka þurfi vextina um 2% en fjmrn. hefur upplýst hæstv. sjútvrh. um að það telji að það þurfi ekki að vera nema 0,5% til að Fiskveiðasjóður haldi sinni eiginfjárstöðu ef ég skyldi mál hans rétt. ( Sjútvrh.: Jafnvel bæti hana með sama hætti og á síðasta ári.) Jafnvel bæti hana með sama hætti og á síðasta ári. Ég hef miklar efasemdir um að þetta sé rétt. Það hlýtur að skipta miklu máli hvernig menn meta útlán sjóðsins og hugsanlegar afskriftir þeirra á þessu ári. Eins og hæstv. sjútvrh. er betur kunnugt en öllum öðrum þá er afkoma sjávarútvegsins mjög slæm um þessar mundir. Það mun að sjálfsögðu hafa áhrif á afkomu sjóðsins og útlánatap hans. Hjá því verður vart komist eins og nú horfir. Hvernig erlendir aðilar meta þessa stöðu hlýtur að fara eftir því hvernig þeir meta áhættuna, hvernig þeir meta arðsemi eigin fjár. Mér þykir ólíklegt að þeir séu sammála þeirri niðurstöðu fjmrn. að nægilegt sé að bera uppi þessa miklu útgjaldaaukningu sjóðsins með 0,5% á vöxtum án þess að ég ætli að fullyrða þar neitt um. Mér sýnist því einsýnt, hæstv. forseti, að málið þurfi miklu nánari athugunar við svo menn viti hvað verið er að gera með þessari löggjöf en gangi ekki blint fram eins og mér sýnist vera gert í máli þessu.