Skattskylda innlánsstofnana

149. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 16:56:15 (6902)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil benda hæstv. fjmrh. á að það hefur ekki skort á það að við í Kvennalistanum höfum bent á önnur úræði. Við höfum einnig bent á að það þurfi að skoða skattkerfið í heild sinni. Við höfum lýst því yfir að við séum sammála því að leggja skatt á fjármagnstekjur. En við höfum jafnframt bent á að atvinnuvegirnir, eins og hæstv. fjmrh. tók undir, standi mjög illa til að taka á sig aukna skattheimtu núna. Það þarf að skoða þetta í heild og það má einnig um leið skoða hátekjuskatt sem ekkert hefur verið rætt um hér. Það er fullkomlega ólýðræðislegt að enn þá skuli haldið áfram með það að hafa aðeins eitt skattþrep, þ.e. sama álagning sé á allar tekjur. Það þarf að skoða frekar, ekki síst með tilliti til þess að bilið á milli ríkra og fátækra er sífellt að stækka. Það þarf að taka inn í myndina að leggja á hátekjuskatt og skatt á lúxusvörur. Þetta þarf að skoða í samhengi. Ég mótmæli því, hæstv. fjmrh., að þingmenn hafi ekki kynnt sér þau mál sem hér er verið að ræða.