Skattskylda innlánsstofnana

149. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 16:57:25 (6903)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það má vel vera að það sé rétt sem kom fram hjá hv. þm. að full ástæða sé til að skoða skattkerfið í heild og full ástæða til að kanna hvort ekki megi leggja á einhverja aðra skatta en hér eru til umræðu. Það breytir hins vegar ekki því, sem var aðalatriðið í mínu máli, að með þessu frv. er ómótmælanlega verið að taka skref í átt til þess að gera skattlagninguna sambærilega. Ég minni á í því sambandi að veðdeildir ríkisbankanna þurfa að greiða skatta í dag. Þeir skattar hljóta óhjákvæmilega að lenda á þeim sem

eru viðskiptamenn þeirra stofnana. Það er eðli skattanna að þeir lenda síðast og ekki síst á þeim sem eru endanlegir notendur. Þetta er það sem ég er að reyna að koma til skila og hef reynt aftur og aftur og hefur ekkert með það að gera hvort menn vilja leggja á annars konar skatta sem því miður hefur þó ekki verið lýst nægilega vel í ræðum eða tillögum þingmanna stjórnarandstöðuflokkanna á þingi í vetur.