Skattskylda innlánsstofnana

149. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 17:42:44 (6906)


     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það gerist við og við að ýmislegt skemmtilegt og skondið rekur á fjörur okkar sem erum hér í vinnunni í Alþingishúsinu frá einu ári til annars. Ef mér

hefði verið sagt það í desembermánuði 1988 að Sjálfstfl. ætti eftir að sitja hér í Alþingi vorið 1992, að fjmrh. Sjálfstfl. ætti eftir sitja hér í þingsalnum dag eftir dag og sjálfstæðismenn á forsetastóli taka vaktina hver á fætur öðrum til að koma í gegn frv. um skattskyldu innlánsstofnana þá hefði ég hlegið að slíku sem góðlátlegum brandara. Ég hafði fyrir áramót 1988 staðið í látlausu stríði við þá tvo þingmenn sem sitja nú í ráðherrastólum í salnum, hæstv. sjútvrh. og hæstv. fjmrh., og ýmsa góða félaga þeirra sem gerðu það að skilyrði fyrir þinglokum fyrir jól 1988 að hætt yrði við að skattleggja innlánsstofnanir. Það var satt að segja aðalkrafa Sjálfstfl. til mín sem fjmrh. í desember 1988 og til ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar að hætt yrði við þessi áform um skattlagningu innlánsstofnana.
    Nú er það aðalkrafa Sjálfstfl. til stjórnarandstöðunnar að skattlagning innlánsstofnana verði afgreidd fyrir þinglok sem lög. Ég spurði að því hér við 1. umr. þessa máls: Hvað hefur breyst í stefnu Sjálfstfl.? Ég hef ekki fengið nein svör við því enn. Ég spurði hæstv. forsrh., formann Sjálfstfl., fékk ekkert svar. Ég spurði hæstv. fjmrh., varaformann Sjálfstfl., ég fékk ekkert svar. Ég spurði hæstv. sjútvrh., fyrrv. formann Sjálfstfl., ég fékk ekkert svar. Ég spurði hæstv. landbrh., fyrrv. leiðtoga Sjálfstfl. í efri deild, ég fékk ekkert svar.
    Er það þannig, virðulegu ráðherrar og virðulegi forseti, að stefna Sjálfstfl. sé bara marklaus? Er hún einnota gagn eftir því hvernig vindar blása? Kannski er það aukaatriði í þessari umræðu. En engu að síður er það svo hér á vordögum 1992 að það er höfuðkrafa Sjálfstfl. að innlánsstofnanir, Fiskveiðasjóður, Iðnlánasjóður, Stofnlánadeild landbúnaðarins og fleiri slíkir verði skattlagðir.
    Virðulegi forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að tala langt mál. En ég hafði ætlað mér að spyrja hæstv. forsrh. fáeinna spurninga um samhengið í því sem hans ríkisstjórn er að biðja Alþingi um að gera og hefur beðið Alþingi um að gera í vetur. Hið sérstaka tilefni mitt er viðtal sem birtist við hæstv. forsrh. í sjónvarpi, að mig minnir sl. fimmtudags- eða föstudagskvöld. Líklega sl. föstudagskvöld þar sem hann var að lýsa afstöðu ríkisstjórnarinnar til atvinnuleysis og málefna atvinnuveganna. Ég vil þess vegna spyrja virðulegan forseta hvort hægt sé að gera ráðstafanir til þess að hæstv. forsrh. komi til fundarins. ( Forseti: Hæstv. forsrh. virðist ekki vera í húsinu eins og stendur.) Virðulegur forseti. Ég held þá til þess að greiða fyrir málum og til þess að spara tíma væri skynsamlegra að ég gerði hlé á ræðu minni og héldi henni áfram þegar hæstv. forsrh. væri kominn vegna þess að ég hef satt að segja mjög lítinn áhuga á að standa hér í stólnum og fara yfir einhvað sem ég þarf svo að endurtaka fyrir hæstv. forsrh. þegar hann kemur. ( Forseti: Umræðunni er frestað.) Já, ég þakka fyrir það.