Samkomudagur reglulegs Alþingis 1992 o.fl.

149. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 18:00:45 (6914)

     Frsm. allshn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon spyr um hvers vegna nefndin hafi valið þennan tiltekna dag og æskir rökstuðnings. Sá rökstuðningur, hv. þm., kom fram í máli framsögumanns. Hann byggðist á því að samkomulag þingflokka varð um þennan dag. Upphaflega samkomulagið, sem formenn stjórnarflokkanna settu stafi sína undir, var þess efnis að þingið skyldi koma saman 10. ágúst. Skömmu síðar gerðist það að ósk kom fram um að þessum samkomudegi yrði seinkað til 17. ágúst. Menn urðu við því að fresta samkomudeginum frá 10. ágúst til 17. ágúst sökum þessarar beiðnar sem kom raunar fram frá einum af stjórnarandstöðuflokkunum. Rétt er að það komi líka fram að það var með nokkrum trega að fulltrúi Alþfl. varð við þessari beiðni vegna þess að alveg er ljóst að

það þarf talsvert mikinn tíma til að fjalla um EES. En sökum þess að farið var fram á þetta þá varð það að ráði að veita þessa bón.