Greiðslur úr ríkissjóði

149. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 18:23:56 (6924)

     Frsm. fjárln. (Pálmi Jónsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef fullan skilning á því að hv. efh.- og viðskn. hafði eigi langan tíma til þess að fjalla um málið. En ég hlýt að vekja athygli á því að frv. er þingmönnum ekki ókunnugt og ef hv. nefnd hefði haft einhverjar sérstakar athugasemdir við frv. hefði það að sjálfsögðu komið fram í bréfi hennar.
    Ég bendi á að þó að efh.- og viðskn. fjalli um öll þau málefni er varða tekjur ríkissjóðs, þar á meðal alla löggjöf er lýtur að skattamálum og til efh.- og viðskn. beri að vísa samkvæmt þingsköpum tekjuhlið fjárlagafrv., þá er ekkert sem segir um það í þingsköpum að þangað skuli vísa þeim málum er lúta að greiðslum úr ríkissjóði sem þetta frv. fjallar fyrst og fremst um. Það var álit þeirra embættismanna þingsins, sem eru iðulega til aðstoðar við að túlka þingskapalög, að eðlilegt væri að vísa þessu máli til fjárln. sem og var gert. Ég var ekki viðstaddur þá atkvæðagreiðslu eða þau orðaskipti sem þá fóru fram en ég tel það á engan hátt óeðlilegt. Nefndin tók málið fyrir og athugaði það og kvaddi á fund sinn þann aðila sem ég hef hér rakið í fyrri ræðu minni. Ég lít svo á að það hafi hlotið vandlegan undirbúning og í raun mjög vandlega meðferð.