Efling ferðaþjónustu

149. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 18:28:52 (6926)

     Frsm. samgn. (Árni M. Mathiesen) :
    Hæstv. forseti. Nefndin hefur fjallað um tillöguna. Umsagnir bárust frá Ferðamálaráði, Ferðaþjónustu bænda, Náttúruverndarráði og Sambandi veitinga- og gistihúsa.
    Nefndin tekur undir þau orð flm. tillögunnar að leggja beri áherslu á aukna ferðaþjónustu. Nefndin telur jafnframt að aukin ferðaþjónusta geti eflt og aukið fjölbreytni atvinnulífs víðast hvar á landinu. Lagt er til að athugun verði gerð á því á hvaða stöðum framkvæmdir við ferðaþjónustu eru brýnastar og skila mestum árangri til þess að unnt sé að taka á móti fleiri erlendum ferðamönnum. Niðurstöður þessara athugana verði tiltækar fyrir þá sem ráðast vilja í eða fjármagna verkefni á þessu sviði.
    Nefndin leggur til að till. verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þskj. Undir nál. skrifa allir nefndarmenn, Árni M. Mathiesen, Sigbjörn Gunnarsson, Stefán Guðmundsson, Jóhann Ársælsson, Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, Sturla Böðvarsson, Árni Johnsen og Guðni Ágústsson og Sigríður A. Þórðardóttir sem tók þátt í afgreiðslu málsins í fjarveru Pálma Jónssonar.