Skýrsla um málefni og hag aldraðra

150. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 21:15:57 (6942)


     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni fyrir að vekja athygli á þessari döpru staðreynd og hún er sérstaklega umhugsunarefni fyrir hæstv. forsrh. Hæstv. forsrh. hefur gert sér far um það í vetur að flytja þjóðinni fréttir af því hvernig eigi að stýra þinginu og verkum hér. Það vill svo til að verkstjórnin í ríkisstjórninni er svo bágborin að mál, sem er hér 3. mál þingsins, beiðni um skýrslu sem þingflokkur Alþb. flutti og hv. þm. Svavar Gestsson er fyrsti skýrslubeiðandi og borin var hér fram á fyrsta degi þingsins, er skilað af hæstv. heilbrrh. eftir mikla eftirgangsmuni um páska. Síðan er það leyft að hæstv. heilbrrh. sé fjarverandi síðustu tvær vikur þingsins þannig að hæstv. heilbrrh. og hæstv. forsrh. hafa í sameiningu komið því þannig fyrir að það er vonlaust á þessu þingi að ræða þessa skýrslu sem beðið var um á fyrsta degi þingsins. Ef svona vinnubrögð eiga að tíðkast hjá hæstv. ráðherrum og hjá hæstv. ríkisstjórn framvegis þá er eiginlega vandséð, eins og hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson benti á, hvað þingmenn eiga að gera því að þetta er auðvitað slíkt virðingarleysi af hálfu hæstv. heilbrrh. og af hálfu hæstv. ríkisstjórnar gagnvart þinginu að það nær ekki nokkurri átt.
    Í þingsköpum er sérstaklega kveðið á um rétt þingmanna til þess að óska eftir skýrslu og ef nægilegur fjöldi þingmanna óskar eftir því að hún sé rædd, eins og gert var á þskj. þegar það var lagt fram á fyrstu dögum októbermánaðar, þá er það skylda samkvæmt þingsköpum að ræða hana. Nú hefur ríkisstjórnin og stjórn þingsins í sameiningu komið því þannig fyrir að þessu þingi mun ljúka án þess að hæstv. heilbrrh. geti flutt þinginu sjálfur þessa skýrslu. Vinnubrögð af þessu tagi hjá hæstv. ráðherrum og hæstv. ríkisstjórn duga ekki. Verkstjórnin í ríkisstjórninni verður einfaldlega að vera betri ef sá réttur þingsins að krefja ráðherra um skýrslu á að vera innihaldsríkur og vera í samræmi við þau þingsköp sem við störfum eftir. Við höfum hvað eftir annað í vetur óskað eftir því að þessi skýrsla yrði flutt, hún yrði lögð fram. Við gengum eftir því mánuð eftir mánuð og loksins um páska var orðið við því að leggja skýrsluna fram, um það bil hálfu ári eftir að beðið var um hana hér á fyrsta degi þingsins. Og nú er hún 40. mál á dagskrá á síðasta sólarhring þinghaldsins. Þetta er mjög sláandi dæmi um þá lélegu verkstjórn sem ríkt hefur innan ríkisstjórnar Íslands á þessu fyrsta þingi kjörtímabilsins.