Skýrsla um málefni og hag aldraðra

150. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 21:20:50 (6944)


     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er vissulega þarft verk að minna þingheim á að ráðherrar beri upplýsingaskyldu gagnvart þinginu og þeim beri samkvæmt þingskapalögum að verða við óskum um skýrslu og það verður ekki sagt að vel hafi verið tekið í svör við beiðni um þær tvær skýrslur sem við þingmenn Alþb. höfum beðið um og margir mánuðir liðu án þess að menn fengju ádrátt um að skýrslurnar væru á leiðinni. Auðvitað er það alveg fyrir neðan allar hellur, virðulegi forseti, að skýrslur sem eru þingmál nr. 3 og 24 skuli vera þannig fyrir komið að verið sé að reyna að koma þeim fyrir á síðustu þremur dögum þingsins, alveg fráleitt. Ég tel slík vinnubrögð ekki vera þinginu til sóma og vildi beina því til forseta og forsætisnefndar að í framtíðinni gættu þeir meiri virðingar gagnvart óskum þingmanna til ráðherra.
    Ég vil líka minna á það, virðulegi forseti, að það er einnig hægt að óska upplýsinga frá ráðherrum með öðrum hætti, þ.e. með skriflegum fsp. og ég er með tvær skriflegar fsp. sem ég lagði fram í mars, aðra 15. mars og hina 25. mars. Sú síðari var til hæstv. viðskrh. sem ég sé nú ekki í salnum og væri fróðlegt að vita ef hæstv. forseti gæti upplýst okkur um það hvort ráðherrann muni verða á þessum fundi í kvöld og nótt eða á morgun. Hin fsp. er til hæstv. fjmrh. Ég hef í tvígang gengið eftir því að fá svör við

þessum fsp. En samkvæmt þingskapalögum ber að svara þeim innan tíu virkra daga frá því að þær eru bornar fram. Nú er tíminn orðinn fjórfalt lengri og ég gaf mönnum þó þann umhugsunarfrest að ég fór ekki að hreyfa við þessu fyrr en í síðustu viku. Nú er síðasti þingdagur á morgun og enn bíð ég eftir svörum og enn hefur hæstv. forseti ekkert gefið mér upp um það hvort ég muni fá svör. Þetta tel ég alveg ófært, virðulegi forseti, ef þingmenn eiga að búa við það að það sé á valdi ráðherra hvort þeir yfir höfuð svara þeim fyrirspurnum sem fyrir þá eru lagðar. Ég vil því ítreka enn og aftur óskir mínar um að hæstv. forseti gangist við því að svör verði lögð fram við þessum fyrirspurnum eða upplýsi mig um annað ef það verður ekki gert.