Skýrsla um málefni og hag aldraðra

150. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 21:24:00 (6946)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Mér var fyllilega kunnugt um það að hæstv. umhvrh. ætlar að hlaupa í skarðið fyrir hæstv. heilbrrh. til að bjarga sem eins konar neyðarlausn því að reynt sé a.m.k. að forminu til að uppfylla þingsköpin. En það vitum við auðvitað öll að er neyðarlausn með allri virðingu fyrir hæstv. umhvrh. Það er auðvitað metið að hann reyni að gera sitt. En það veit auðvitað öll þjóðin að hann getur ekki borið ábyrgð á heilbrigðismálum í vetur. Það er hæstv. ráðherra Sighvatur Björgvinsson en hann er ekki hér og hann mun ekki flytja skýrsluna.
    Það tók sex mánuði fyrir hæstv. heilbrrh. að skila þessari skýrslu til þingsins og menn sem skoða skýrsluna geta séð að hún er engin sex mánaða vinna. Hér er þess vegna greinilega um vanrækslu hæstv. heilbrrh. og ríkisstjórnarinnar gagnvart þinginu að ræða. Og eins og hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson benti á er þetta 3. mál þingsins. Og ef ríkisstjórnin vanrækir 3. mál þingsins hvað þá um önnur mál? Þetta er lærdómur sem ríkisstjórnin á að tileinka sér og láta ekki gerast aftur. Forsætisnefnd næsta þings á að sjá til þess að þetta gerist ekki aftur að ef þingmenn á fyrstu dögum októbermánaðar biðja um svör frá ríkisstjórn og skýrslu þá gerist það ekki aftur að þau komi ekki fyrr en um páska. Það er þetta sem ég var að árétta hér, virðulegi forseti, í tilefni af ummælum hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar. Auðvitað vissi ég að það hefur verið reynt sem eins konar neyðarlausn að láta þessa umræðu fara fram í eins konar skemmri skírn áður en þingi lýkur. Við ætlum líka að sætta okkur við að umræðan um skýrslu iðnrh. haldi áfram þó að hann sé nú erlendis og hafi talið það mikilvægara að fara til útlanda heldur en vera hér á þingi síðustu sólarhringana til að standa fyrir máli sínu. Það er satt að segja dálítið sérkennilegt hve margir ráðherrar telja nauðsynlegt að vera erlendis á lokatíma þingsins þegar allir, sem þekkja þingstörf, vita að þá er mikilvægast að ráðherrar séu hér til þess að standa fyrir máli sínu og greiða fyrir þinglokum.
    Ég vona þess vegna, virðulegi forseti, að þetta gerist ekki aftur og á næsta þingi verði séð til þess að vinnubrögð verði með öðrum hætti.