Skýrsla um málefni og hag aldraðra

150. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 21:30:17 (6950)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það tók hæstv. heilbr.- og trmrh. hálft ár að svara þessari skýrslubeiðni. Og hann byrjaði ekki á því að óska eftir því að skýrslan yrði rædd hér á Alþingi. Hann byrjaði á því að halda blaðamannafund þar sem hann lagði skýrsluna fram. Hann ræddi hana fyrst á blaðamannafundi, bað síðan um leyfi um ótiltekinn tíma frá störfum á Alþingi. Þetta er auðvitað ekki virðing við Alþingi, hæstv. forseti. Og auðvitað hljótum við að velta því fyrir okkur hvað það á yfirleitt að þýða af okkur að vera að biðja um skýrslur þegar með þær er farið með þessum hætti. Við hljótum að fara fram á það við forseta að hún athugi hvort ekki sé ástæða til að breyta ákvæðum þingskapa í þessum efnum þannig að svarskyldur ráðherra séu skýrari og öll meðferð skýrslubeiðna.
    Þessi viðbára hæstv. umhvrh. sem einlægt heyrist að aðalverkefni Alþingis sé að setja lög segir náttúrlega ekki nema hálfa söguna vegna þess að það er í raun og veru ekki nema helmingurinn af verkefni Alþingis að setja lög. Hitt er að vera pólitískur vettvangur fyrir stefnumótun og hér voru lagðar fram tvær skýrslubeiðnir, önnur um iðnaðinn og hin um málefni aldraðra. Til hvers? Til þess að ræða almennt um stefnu í málefnum iðnaðarins og í málefnum aldraðra? Þessi skýrsla um málefni aldraðra sem hér hefur örlítið verið gerð að umtalsefni, og ég ætla ekki að rekja frekar af því að hún er ekki á dagskrá heldur síðar, er meingölluð. Og það hefði auðvitað þurft að ræða hana miklu fyrr og kannski er ekki kostur á að ræða hana ítarlega fyrr en á næsta þingi. Þetta veldur mér áhyggjum vegna þess að það er verið að gera skýrsluákvæði þingskapanna ónýtt. Það er þannig því miður, hæstv. umhvrh.