Frumvarp um ríkisábyrgð á launum við gjaldþrot

150. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 21:53:51 (6955)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Það er hárrétt sem hv. þm. sagði. Það var ein af yfirlýsingum ríkisstjórnar að tryggja efnisþátt varðandi þetta mál sem þingmaðurinn ræddi. Það hugðist ríkisstjórnin gera með reglugerðarsetningu og hefur talið að það væri nægjanlegt til að tryggja þau efnisatriði sem fólust í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga varðandi ábyrgðarsjóð á laun. Forsvarsmenn Alþýðusambandsins leggja hins vegar höfuðáherslu á það að þessi efnisatriði verði tryggð með lagasetningu en ekki með reglugerðarsetningu eins og ríkisstjórnin hefur talið nægjanlegt. Því eru menn nú að vinna að því að setja reglugerðina í lagabúning og framhald málsins verður auðvitað kynnt forustumönnum stjórnarandstöðunnar síðar í kvöld og ég met mikils góð orð formanns Alþb. um að greiða fyrir málinu þegar það kemur hingað inn.