Lífeyrissjóður sjómanna

150. fundur
Mánudaginn 18. maí 1992, kl. 23:12:47 (6966)

     Guðmundur Hallvarðsson :
    Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að lengja mál mitt varðandi þetta mál, svo mjög sem það hefur verið um rætt á Alþingi. En aðeins vegna þess sem hér hefur verið sagt þá tek ég undir orð síðasta ræðumanns, hv. 1. þm. Austurl., er hann talar um að stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna eigi auðvitað að vera ábyrg gerða sinna og ekki undir ríkisvald eða Alþingi sett. Auðvitað á Lífeyrissjóður sjómanna að vera og starfa með sama hætti og aðrir sjóðir, þ.e. undir reglugerðarákvæðum, eins og t.d. Lífeyrissjóður samvinnustarfsmanna, sem hefur sjómenn innan sinna vébanda og hefur nýlega breytt sinni reglugerð án þess að hv. 14. þm. Reykv. hafi nokkrar athugasemdir gert við það, enda kannski ekki vitað af því. Þar eru sjómenn innan vébanda samvinnusjóðsins sem þurfa að lúta því að fá örorkubætur greiddar í þrjú ár þar til endurmat fer fram eins og gerist í öllum öðrum lífeyrissjóðum þessa lands.
    Síðast þegar ég ræddi um þetta mál sagði ég að Lífeyrissjóður sjómanna væri einn þeirra lífeyrissjóða sem væru best tryggðir gagnvart útistandandi skuldum. Sá sjóður sem best er tryggður er kannski Lífeyrissjóður opinberra starfsmanna. Lífeyrissjóður sjómanna á veðbönd í hverju skipi þess útgerðarmanns sem skuldar til sjóðsins. Ég sagði líka þá að líklega væri besta ávöxtun Lífeyrissjóðs sjómanna vanefndir á greiðslum útgerðarmanna í sjóðinn. Ég sagði það líka þá, og bið hv. 14. þm. Reykv. að taka sérstaklega eftir því, að þótt útistandandi séu 150 millj. hjá útgerðinni kemur það aldrei til með að lenda á sjómönnum að greiða þá skuld vegna veðbanda í skipunum sjálfum. Við munum ná þessari skuld inn og þetta er ekki stór skuld miðað við tekjur Lífeyrissjóðs sjómanna.
    Hv. 18. þm. Reykv. talaði um það, sem rétt er, að auðvitað er það nauðsynlegt að lífeyrissjóðurinn falli undir almennar reglur lífeyrissjóðanna. Með þessari breytingu á lögum um Lífeyrissjóð sjómanna erum við að aðlaga okkur í þá átt, þó með einni stórri undantekningu og það er greiðsla lífeyris til þeirra sjómanna sem eru orðnir sextugir og hafa stundað sjó í 25 ár. Það er stórt frávik frá því sem almennt er í lífeyrissjóðunum. Það veit ég að hv. þm. vita. Hins vegar er eitt sem ég held að hv. 14. þm. Reykv. þurfi líka að gera sér grein fyrir og það er rétt að rifja það upp þá hún sat í ríkisstjórn með þáv. félmrh. Svavari Gestssyni, sem hún var að segja hér í ræðustól rétt áðan með miklum innileik og var mjög hamingjusöm yfir  . . .  ( Gripið fram í: Af ástúð.) Af ástúð kalla þingmenn fram í.) Þú varst stjórnarþingmaður, hv. 14. þm. Reykv. Þá flutti þáv. félmrh. löggjöf um breytingu á Lífeyrissjóði sjómanna að hann skyldi greiða lífeyri til 60 ára sjómanna. En ekkert annað fylgdi með. Lífeyrissjóðurinn sjálfur skyldi standa ábyrgð á þeim skuldbindingum sem hann var þá að taka á sig umfram alla sjóði. En í viðræðum við þennan hv. fyrrv. félmrh. kom þá fram að þáv. ríkisstjórn myndi greiða þann kostnaðarauka sem af þessu hlytist til Lífeyrissjóðs sjómanna en það varð þó aldrei af því. Það voru svikin loforð. Þegar sami þingmaður talar um það núna að verið sé að gera sérstakar ráðstafanir fyrir Lífeyrissjóð sjómanna vegna Verðjöfnunarsjóðs þá vildi ég bara upplýsa hann um það að þessi greiðsla, sem kemur nú til góða til lífeyrissjóða sjómanna, gerir það eitt af verkum að þessir lífeyrissjóðir standa jafnnær í dag og þeir gerðu áður en þessi 60 ára regla var sett sem lög frá Alþingi, þ.e. þær skuldbindingar sem lífeyrissjóðirnir tóku á sig vegna 60 ára reglunnar eru að fullu dekkaðar með þessari greiðslu, annað ekki.
    Varðandi örorkubæturnar, sem mikið hefur verið rætt um, er það að segja að lífeyrissjóðurinn er að fara fram á samræmingu við aðra sjóði, þ.e. ef örorka hefur varað í fimm ár hjá sjómanni og hún er áfram sú sama þá hlýtur viðkomandi sjómaður að sjálfsögðu áfram örorkubætur úr sjóðnum. Það er aðeins þessi aðlögun sem felst í breytingu á lögunum í þá veru að sjómaður fái fimm ára aðlögunartímabil í landi til að aðlaga sig að breyttum staðháttum og sé hann þá þannig í sveit settur að örorkan hafi verulega breyst þannig að hann geti tekið upp önnur störf í landi þá skerðist örorkan um þær prósentur sem örorkan hefur minnkað. Það er eðlilegt að lífeyrissjóðurinn geri þessa ráðstöfun vegna þess að það kom fram í umræðunni um daginn að menn teldu eðlilegt að iðgjöld til Lífeyrissjóðs sjómanna yrðu hækkuð til þess að hann gæti staðið undir þessum skuldbindingum óbreyttum, þ.e. svo lengi sem maður gæti ekki stundað sjómennsku þá mundi hann njóta örorkubóta úr Lífeyrissjóði sjómanna að fullu jafnvel þótt hann gæti stundað störf eins og hver annar landmaður. Við teljum að þetta sé ekki eðlilegt miðað við tilgang lífeyrissjóðanna sem fyrst og fremst byggist á því að greiða mönnum ellilífeyri. Tryggingarlegur þáttur lífeyrissjóðanna er að vísu til og er staðreynd en það var ekki sú hugsun sem ríkti þegar sjóðirnir voru stofnaðir.
    Aðeins út af því að hv. 14. þm. Reykv. kom inn á það áðan að þegar hún hóf þetta mál 4. maí þá hafi ég ekki verið til staðar í húsinu. Nú þykir mér rétt að upplýsa það að föstudaginn 8. maí talaði ég við forseta um það hvort nú yrði tekið til umræðu málefni Lífeyrissjóðs sjómanna. Þá var upplýst af hæstv. forseta, Sturlu Böðvarssyni, að hv. 14. þm. Reykv. hefði komið til forseta og sagt: Ég þarf að fara burtu úr húsinu og þess vegna óska ég eftir því og treysti því að málefni lífeyrissjóðanna verði ekki tekið til umræðu. En þá var 16. þm. Reykv. í húsinu til að ræða málið en ekki hv. 14. þm. Reykv. Mér finnst því óþarflega mikið gert úr því þótt ég hafi brugðið mér frá þennan tiltekna dag, 4. maí. Enn er verið að klifa á því.